Erlent

Líkamsleifar farþega MH17 fluttar til Hollands í dag

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Löng Leið Biðin hefur verið erfið fyrir aðstandendur fórnarlambanna.
Löng Leið Biðin hefur verið erfið fyrir aðstandendur fórnarlambanna. Fréttablaðið/AP
Lest með líkamsleifar fórnarlamba árásarinnar á flugvél Malaysia Airlines í síðustu viku kom til borgarinnar Kharkiv í gær. Þaðan verða lík farþeganna flutt til Hollands og þau fyrstu koma til landsins í dag.

„Þegar líkamsleifarnar eru komnar til Hollands fer af stað ferli til að bera kennsl á þær,“ sagði Scott Heidler, blaðamaður Al Jazeera, sem er í Kharkiv. Lík þeirra sem ekki voru frá Hollandi verða síðan flutt til síns upprunalands.

298 manns, flestir Hollendingar, létust þegar vélin var skotin niður yfir Úkraínu á fimmtudag. Hollensk yfirvöld leiða alþjóðlega rannsókn á atvikinu.

Aðskilnaðarsinnar í Úkraínu afhentu í gær svörtu kassana tvo með upplýsingum um síðustu stundir flugferðarinnar. „Malasíska teymið hefur fengið svörtu kassana, sem virðast vera í góðu ásigkomulagi,“ sagði Najib Razak, forsætisráðherra Malasíu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×