Innlent

Líkamsárásum á höfuðborgarsvæðinu fjölgar enn á milli ára

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Meirihluti ofbeldisbrota á sér stað að kvöld-og næturlagi um helgar og er vettvangur brotanna oftar en ekki miðbær Reykjavíkur.
Meirihluti ofbeldisbrota á sér stað að kvöld-og næturlagi um helgar og er vettvangur brotanna oftar en ekki miðbær Reykjavíkur. vísir/kolbeinn tumi
Alls voru 840 líkamsárásir tilkynntar til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á síðasta ári en þar af voru rúmlega 150 árásir sem teljast alvarlegar.

Til samanburðar var tilkynnt um alls 750 líkamsárásir árið 2013 en ofbeldisbrotum stöðugt fjölgað frá árinu 2011. Þetta kemur fram í ársskýrslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem gefin var út í dag.

Líkt og áður á meirihluti ofbeldisbrota sér stað að kvöld-og næturlagi um helgar og er vettvangur brotanna oftar en ekki miðbær Reykjavíkur.

Eitt morð var framið á höfuðborgarsvæðinu í fyrra þegar maður varð eiginkonu sinni að bana í íbúð þeirra í fjölbýlishúsi í Breiðholti.

„Eiginkonan var látin þegar að var komið en strax vaknaði grunur um að dauða hennar hefði borið að með saknæmum hætti. Eiginmaðurinn var handtekinn í íbúðinni, en börnunum komið í umsjá barnaverndaryfirvalda. Við yfirheyrslur þótti frásögn mannsins af því sem gerðist ekki trúverðug, en rannsókn málsins var viðamikil eins og ávallt í málum sem þessum. Svo fór að eiginmaðurinn var ákærður fyrir að bregða reim úr hettupeysu um háls eiginkonunnar og þrengja að með þeim afleiðingum að hún lést,“ segir í ársskýrslu lögreglunnar.

Hegningarlagabrotum á höfuðborgarsvæðinu fækkar milli ára og var hlutfallslega mest fækkun kynferðisbrota. Þó er tekið fram í skýrslunni að óvenju mikill fjöldi slíkra mála var til rannsóknar hjá lögreglunni árið 2013.

Ekkert banaslys varð í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu árið 2014. Umferðarslysum fækkaði þó ekki heldur fjölgar á mili ára; voru að meðaltali sjö á viku árið 2013 en voru að meðaltali átta í viku í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×