Innlent

Líkamsárás í Hafnarfirði

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Karlmaður var handtekinn fyrir að hafa ráðist á annan í Hafnarfirði.
Karlmaður var handtekinn fyrir að hafa ráðist á annan í Hafnarfirði. vísir/stefán
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nægu að snúast í nótt en töluvert var um ölvun og umferðaróhöpp. Tveir fengu að gista fangageymslur.

Í dagbók lögreglu segir að karlmaður hafi verið fluttur með skerta meðvitund á slysadeild í nótt eftir að hafa orðið fyrir líkamasárás í Hafnarfirði. Árásarmaðurinn var handtekinn.

Annar maður var handtekinn, fyrir utan skemmtistað í Kópavogi. Sá hafði verið að atast í fólki og reyndi að fá það til að slást. Maðurinn vildi ekki upplýsa um hver hann væri og svo fór að hann var vistaður í fangaklefa, þar til hægt verður að ræða við hann.

Þá barst lögreglu tilkynning um aðila á skemmtistað í miðbæ Reykjavíkur sem braut glas og var ógnandi. Þegar lögregla kom tók hann glerbrot í aðra höndina og var ógnandi. Hann neitaði að hlýða fyrirmælum lögreglu og var piparúða beitt á hann til að yfirbuga hann. Hann var vistaður í fangageymslu.

Kona datt í miðbænum og fékk skurð á höfuðið. Lögregla og sjúkralið aðstoðuðu hana en áverkarnir voru minniháttar. Hún var flutt á slysadeild.

Einn hringdi á lögreglu og lét vita að hann hefði brotið rúðu í bræði sinni. Hann var heldur ölvaður og var mikið í mun um að atvikið yrði skráð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×