Innlent

Líkamsárás við skemmtistað: „Fullt af 95 módelum gerðu alvarlegri hluti“

Kolbeinn Tumi Daðason og Stefán Árni Pálsson skrifa
Tvær ungu kvennanna í héraðsdómi í morgun.
Tvær ungu kvennanna í héraðsdómi í morgun. Vísir/GVA
Stúlkurnar fjórar sem sakaðar eru um líkamsárás á hendur stúlku á sautjánda ári inni á og utan við skemmtistaðinn Úrillu górilluna uppi á Höfða í mars 2013 báru vitni við aðalmeðferð málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Fram kom í máli stúlknanna að slagsmálin utan við staðinn hefðu verið mjög fjölmenn og fleiri hefðu komið við sögu en þær fjórar sem sæta ákæru.

Fallið var frá ákæru á hendur fimmtu ungu konunni í morgun. Þrjár þeirra eru 21 árs en sú fjórða nítján ára. Ein þeirra 21 árs gömlu bar því við fyrir dómi í morgun að hafa farið inn á salerni staðarins þar sem hún hafi séð stúlkuna, sem í dag er átján ára, ráðast á vinkonur sínar.

„Ég reif hana upp á hárinu rétt fyrir utan klósettið og spurði hana hvað hún væri að gera að ráðast á vinkonur mínar. Þá hló hún bara í andlitið á mér, það var eins og hún væri að biðja um þetta. Þá kom bara fullt af fólki og ég var tekin frá. Ég held að ég hafi sparkað einu sinni í lærið á henni og kýlt hana í bringuna.“

Sjá einnig: Hausinn á mér var alltaf að dúndrast í vegginn

Konan sagði að atburðarásin hefði í kjölfarið borist út fyrir staðinn. Þar hafi verið margt fólk og sér hafi ekki liðið vel að horfa á það sem fram fór.

„Þetta var kannski ekkert svo alvarlegt, bara svo mikið að fólki. Minni þátttöku í þessu máli var lokið þegar komið var fyrir utan staðinn. Slagsmálin héldu áfram eftir að ég var tekin í burtu.“

Konan segir að harkalega hafi verið tekið á stelpunni fyrir utan staðinn og henni hafi verið neglt upp við glugga staðarins. Höfuðið hafi greinilega skollið á glerinu.

„Ég sá að það var sparkað í hana en sá samt ekkert hver gerði það.“

Konan sem sökuð er um að hafa ýtt stúlkunni harkalega í gluggann sagði við skýrslutöku hjá lögreglu á sínum tíma að hún hefði verið að reyna að stöðva slagsmálin.

„Ég tel það ekki vera líklegt. Mér fannst það ekki verið tilfellið,“ sagði konan.

Tvræ stúlknanna mæta í héraðsdóm í morgun.Vísir/GVA
Segir aðra hafa gengið mun verr fram

Önnur af konunum sem sætir ákæru lýsti því fyrir dómi í morgun að hún hefði fyrst upplifað að eitthvað væri að gerast þegar hún var að yfirgefa staðinn.

„Ég reyni að troða mér inn í hópinn og sé að vinkona mín er inni í hópnum. Það höfðu greinilega átt sér stað slagsmál þegar ég kem að þessu,“ sagði hún. Hún sagði að stúlkunni hefði verið þvingað út í horn og í kjölfarið upp við glugga.

„Þá sé ég stelpuna hrækja og kýla vinkonu mína sem hafði áður ýtt henni harkalega að glugganum. Hún fékk nokkuð þungt högg á hnakkann við það. Ég ýtti stelpunni nokkrum sinnum en lítið annað,“ sagði unga konan í morgun. Bætti hún við að réttir aðilar hefðu eftir allt saman ekki verið kærðir. Í kringum tuttugu til þrjátíu manns hefðu verið í kringum stúlkuna og margt gerst. Aðrir hafi hagað sér mun verr en þær sem sæta ákæru.

„Það voru fullt af einhverjum 95 módelum þarna sem gengu mun ver fram og gerðu mun alvarlegri hluti en við sem erum ákærðar,“ sagði unga konan.

Ákæruvaldið gerði tilraun til þess að nálgast upptökur úr öryggismyndavélum í aðdraganda aðalmeðferðarinnar en það bar ekki árangur.

Vissi ekki að stúlkan hefði ráðist á vinkonur sínar

Þriðja unga konan sem bar vitni var sú sem sökuð er um að hafa ýtt stúlkunni harkalega upp að glugganum. Sú segist ekki hafa orðið vitni að því sem gerðist á salerni skemmtistaðarins. Þar hafi hún aðeins rætt við vinkonur sínar sem hafi grátið í fanginu á sér. Svo hafi hún farið út og séð að byrjuð voru mikil slagsmál fyrir utan staðinn. Hún hafi farið inn í hópinn og séð stúlkuna standa upp við gluggann.

„Þá byrja ég að öskra ásamt fleirum að stoppa. Þetta var einhvern veginn eins og allir vildu vera með, allir vildu koma höggi á hana. Ég hélt utan um höfuð hennar þegar þarna er komið við sögu og er að reyna tala við hana.“

Hún hafi hins vegar ekki áttað sig á því að stúlkan hefði ráðist á vinkonur sínar. Stúlkan hafi reynt að segja eitthvað við hana en hún ekki skilið hana. Reiknaði hún með því að stúlkan væri ofurölvi.

„Þá segir mér einhver á staðnum að þetta sé stelpan sem hafði ráðist á vinkonur mínar. Þá brjálaðist ég og öskraði mjög harkalega á hana. Hún kýldi mig strax en ég man ekki sjálf hvort hún hafi hrækt á mig. Fólk hefur sagt mér að það hafi gerst en ég man það ekki.“

Síðan hafi hún „bankað höfði hennar að glugganum“ en það hafi ekki verið fast. Hún ætti ekki að hafa meiðst við það sagði unga konan.

„Það voru sennilega hátt í þrjátíu manns þarna fyrir utan og ég held að alveg fimmtán manns hafi tekið þátt í því að sparka og kýla í hana.“

Saksóknari spurði vitnið hvort höfuðhöggin sem hún veitti stelpunni hefðu verið alvarleg. Vitnið svaraði því til að hún gæti slegið mun fastar.

„Þetta var kannski ekkert dangl, kannski aðeins fastar. Ég varð rosalega reið eftir að hún kýldi mig.“

Aðalmeðferðin fer fram í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Segir lögregluna hafa þrýst á sig

„Ég spyr hana af hverju hún hafi verið að ráðast á stelpurnar og þá brást hún þannig við að hún klóraði mig illa í framan. Þegar hún klóraði mig í andlitið þá reif ég aðeins í hárið á henni. Þá klóraði hún mig aftur í andlitið. Þá ýtti ég aðeins í hana og labbaði síðan í burtu,“ sagði fjórða konan, nítján ára, sem sætir ákæru.

„Á svona einni mínútu eru bara allt í einu fimmtán til tuttugu manns komin út af staðnum. Ég var öll útúrklóruð í andlitinu og blóðug en þetta voru ekki vinkonur mínar sem voru að lenda í þessum slagsmálum. Því fór ég bara aftur inn á staðinn.“

Unga konan gagnrýndi störf lögreglunar sem hafi verið aðgangshörð við skýrslutöku og þrýst á hana að nefna einhver nöfn sem komu að árásinni. Hún átti erfitt með að nefna nöfn þar sem vitnið þekkti umræddar stelpur ekki á þessum tíma.

„Ég tók alveg þátt í þessu inni á klósetti. Þegar hún klóraði mig þá ýtti ég henni og reif í hárið á henni,“ sagði unga konan.

„Ég var að reyna komast að stelpunni til spyrja hana af hverju ég tengdist málinu en ég komst ekkert að henni, það var svo mikið af fólki þarna.

Við skýrslutöku á sínum tíma sagðist vitnið hafa séð eina ákærðu sparka í fórnarlambið en hún gat ekki staðfest það við aðalmeðferðina í dag.

„Ég man þetta ekki nægilega vel núna, og vill því frekar neita þessu heldur en játa.“

Uppfært klukkan 13:20

Í upphaflegu fréttinni var sagt að árásin hefði átt sér stað á Úrillu górillunni í Austurstræti. Hið rétt er að árásin varð við Úrillu górilluna uppi á Höfða, sunnan Gullinbrúr.


Tengdar fréttir

Ungu konurnar fimm neituðu allar sök

Þingfesting var í máli fimm ungra kvenna í morgun sem ákærðar eru fyrir hrottafengna líkamsárás á síðasta ári. Þeim er gefið að sök að hafa ráðist á konu á skemmtistað í Reykjavík þann 28. mars í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×