Erlent

Lík leikmanna Chapecoense flutt til heimaborgarinnar

Anton Egilsson skrifar
Nítján meðlimir knattspyrnufélagsins Chapecoense létu lífið í flugslysinu.
Nítján meðlimir knattspyrnufélagsins Chapecoense létu lífið í flugslysinu. Vísir/AFP
Lík leikmanna brasilíska knattspyrnuliðsins Chapeocense og annarra sem ferðuðust með liðinu hafa verið flutt til heimaborgarinnar Chapeco þar sem í dag mun fara minningarathöfn um hina látnu.

Búist er við að meira en 100 þúsund manns mæti á athöfnina sem fram fer á heimavelli knattspyrnuliðsins.  Mikill fjöldi fólks hafði komið sér fyrir á vellinum strax í morgun, margir hverjir klæddir í einkennislitum liðsins, grænum og hvítum.  

Flugslysið átti sér stað í Kólumbíu en hundruð manna voru mættir á flugvöllinn í Medellin í gær til að votta hinum látnu virðingu sína er líkin voru send flugleiðis til Brasilíu.

71 fórst í flugslysinu, þar af nítján meðlimir knattspyrnufélagsins Chapecoense, en félagið var á leið til Medellin í Kólumbíu til að spila til úrslita í Suður-Ameríkubikarkeppni félagsliða, Copa Sudamericana.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×