Menning

Lífsnauðsynlegt öndunarop fyrir mannkynið

Magnús Guðmundsson og Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Verðlaunahafar Fjöruverðlaunanna, bókmenntaverðlauna kvenna, tóku við viðurkenningum sínum við hátíðlega athöfn í Höfða í gær.
Verðlaunahafar Fjöruverðlaunanna, bókmenntaverðlauna kvenna, tóku við viðurkenningum sínum við hátíðlega athöfn í Höfða í gær. Visir/Stefán
Tíu ár eru síðan Fjöruverðlaunin voru afhent í fyrsta sinn en að vanda eru veitt verðlaun í þremur flokkum; fagurbókmenntum, barna- og unglingabókmenntum og flokki fræðibóka og rita almenns eðlis.

Verðlaunaverkið í flokki fagurbókmennta hefur ekki farið hátt en þar er á ferðinni nóvellan Tvöfalt gler, eftir Halldóru Thoroddsen, sem kom út í tímaritaröðinni 1005 á síðasta ári. Halldóra segir að það standi þó fyrir dyrum útgáfa á bókinni á allra næstu dögum. „Ég var búin að ákveða að gefa bókina út áður en ég frétti af þessum verðlaunum. Bókaforlagið Sæmundur á Suðurlandsundirlendinu ætlar að gera það og vonandi geta lesendur nálgast þá útgáfu strax í næstu viku.“

Tvöfalt gler segir frá konu á áttræðisaldri sem hefur nýlega misst eiginmann sinn en lendir óvænt í ástarsambandi og stendur frammi fyrir spurningunni um réttmæti þess að verða ástfangin á efri árum. Dómnefnd Fjöruveðlaunanna fer afar lofsamlegum orðum um verkið og Halldóra segir að þessi viðurkenning hvetji hana vissulega til dáða. „Nú erum við konurnar mættar til leiks, kvennaliðið í bókmenntum. Þessi verðlaun hafa vissulega verið eflandi fyrir konur og það er gaman að fylla þennan flokk í umheiminum. Það mætti segja mér að kvennaverðlaun í bókmenntaheiminum, sem eru veitt víða um lönd, séu að greiða götu kvenna. En maður bara heldur með bókmenntunum og við konur viljum að sjálfsögðu taka þátt í þessu samtali sem byggt hefur verið upp í gegnum bókmenntir í áranna rás. Bókmenntirnar eru lífsnauðsynlegt öndunarop fyrir mannkyn og þetta hlýtur að vera samtal sem við tökum líka þátt í.“

Þakklát og hrærð

„Ég er afskaplega þakklát og hrærð. Mér finnst Fjöruverðlaunin mikil viðurkenning,“ segir Þórunn Sigurðardóttir, en bók hennar Heiður og huggun – Erfiljóð, harmljóð og huggunarkvæði á 17. öld, hlaut verðlaunin í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis. Útgefandi er Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

„Bókin mín byggist á rannsókn sem ég lagði fram til doktorsvarnar árið 2014. Hún fjallar um íslensk kvæði sem hafa varðveist í handritum en aldrei verið prentuð fyrr en þau birtust í þessari bók minni, bæði stafrétt og með nútíma stafsetningu. Í viðauka er ég líka með skrá yfir kvæði af þessu tagi sem eru varðveitt í 17. og 18. aldar handritum.“

Þórunn segir það hafa komist í tísku upp úr siðaskiptum að yrkja tækifæriskvæði og sú tíska hafi borist hingað frá Þýskalandi og Danmörku. „Í erfiljóðum er verið að fjalla um hinn látna, svipað og í minningargreinum hjá okkur en í harmljóðum talar ljóðmælandinn um sína eigin sorg og í kvæðunum fer eiginlega fram eins konar sorgarferli,“ útskýrir hún.

Þórunn er sjálfstætt starfandi fræðimaður og kveðst ýmist vinna heima hjá sér eða á söfnum. Núna við að rannsaka rit með siða- og hegðunarreglum handa ungum stúlkum sem var þýtt fyrst snemma á 17. öld og er bara til í handritum. „Þar er mjög margt sniðugt og spennandi,“ segir hún glaðlega. „En ég á ekki von á að það komi út í bók fyrr en á næsta ári.“

Í samkeppni við góða vinkonu

„Það er mikill heiður að taka við Fjöruverðlaunum,“ segir Hildur Knútsdóttir. Bók hennar Vetrarfrí sem Forlagið gaf út hlaut verðlaunin í flokki barna- og unglingabókmennta. „Ég var hissa þegar ég fékk fréttirnar, enda var ég í samkeppni við góða rithöfunda sem tilnefndir voru, þar á meðal Þórdísi Gísladóttur sem er góð vinkona mín. En ég hefði samglaðst henni ef hún hefði verið í mínum sporum og vona að hún jafni sig á því að ég hafi orðið hlutskarpari. Við erum líka að skrifa bók saman,“ segir Hildur glaðlega.

Í umsögn dómnefndar segir að Vetrarfrí sé spennandi unglingabók með sterka samsvörun til nútímans og heimsmálanna og er þar meðal annars vísað til lífs flóttamanna. „En þó að sagan lýsi óhugnaði og blóðugu ofbeldi er mikill húmor í henni og því um leið líka stórskemmtileg.“

Spurð hvort von sé á framhaldi á Vetrarfríi stendur ekki á svari: „Ég er langt komin með það, sá fyrir endann á því verkefni í síðustu viku en á samt eftir að fara vel yfir og endurskrifa. Ákvað að gefa ekki út fyrri hlutann fyrr en ég væri langt komin með þann seinni, ef eitthvað kæmi upp á. Það er ekki gott að láta of langan tíma líða milli svona bóka en ég býst við að framhaldið komi út í haust.“

Hildur er í hlutastarfi hjá Náttúruverndarsamtökum Íslands og var að fá ritlaun í sex mánuði. Hún kveðst vera með mörg járn í eldinum og hafa nóg að gera.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×