Menning

Lífið snýst um fiðluna

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Við pössum að spila alltaf saman á nokkrum tónleikum á ári, hér og þar,“ segir Geirþrúður Ása.
"Við pössum að spila alltaf saman á nokkrum tónleikum á ári, hér og þar,“ segir Geirþrúður Ása. Fréttablaðið/Stefán
„Við Julien kynntumst fyrst fyrir algera tilviljun sem Fulbright-styrkþegar, á ráðstefnu sem við vorum send á, hvort úr sinni áttinni.

En byrjuðum að spila saman 2011,“ segir Geirþrúður Ása Guðjónsdóttir fiðluleikari sem ásamt Belganum Julien Beurms heldur tónleika í Hannesarholti annað kvöld klukkan 20.

Þar spila þau fiðlusónötu númer 2 eftir Brahms, rúmenska dansa eftir Béla Bartók, spænska svítu eftir Manuel de Falla og fyrstu fiðlusónötu Ravels.

Spurningu um hvort þau Julien séu par svarar Geirþrúður neitandi.

„En við erum bestu vinir. Vorum saman með tónleika í mars í Harvard-háskólanum í Boston og komum svo aftur saman núna í ágúst. Við pössum að spila alltaf saman á nokkrum tónleikum á ári, hér og þar.“

Geirþrúður Ása var að flytja til Íslands eftir sex ára útivist og ætlar að byrja að spila með Sinfóníuhljómsveit Íslands í haust.

„Mér finnst algerlega tímabært að koma heim,“ segir hún. „Sex ár eru dálítið langur tími.“

Þriggja ára var hún þegar byrjuð að læra á fiðluna – í Susuki-skólanum.

„Svo hélt ég bara áfram. Þetta var algerlega það sem mig langaði að gera. Ég var spilandi alls staðar og er enn. Lífið snýst um fiðluna,“ segir hún glaðlega og kveðst hafa lokið námi frá Listaháskólanum 2008.

„Ég var svo eitt ár í Vín og fór þaðan til Connecticut í Bandaríkjunum í skóla sem heitir Hartt School of Music.“

Geirþrúður Ása er dóttir Guðjóns Davíðs Jónssonar, grafísks hönnuðar, og Brynju Margeirsdóttur kennara.

„Foreldrar mínir eru tónlistarunnendur og samtaka í að styðja við allt sem viðkemur listinni. Ég er heppin þar,“ segir Geirþrúður Ása.

„Vonandi finnst þeim gaman að hlusta á mig æfa mig!“

Julien Beurms hóf píanónám sitt sjö ára gamall og útskrifaðist frá konunglega tónlistarskólanum í Mons undir handleiðslu Johans Schmidt og Yuka Izutsu með þrár meistaragráður í píanóleik, meðleik og kennslufræði.

Julien bauðst að stunda nám við New England Conservatory hjá Victor Rosenbaum árið 2011 og hlaut námsstyrk frá Fulbright vegna námsins.

Þá gegndi hann einnig aðstoðarkennarastöðu við New England Conservatory í Boston á meðan á námi stóð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×