Erlent

Líffæri seld í auknum mæli á svörtum markaði

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/ap
Fimmtán börnum hefur verið rænt í Bangladesh á undanförnu ári og myrt á hrottafengin hátt. Líffærin úr þeim voru í kjölfarið seld á svörtum markaði og að sögn íbúa aðhefst lögregla lítið sem ekkert. Skipulögð glæpasamtök notfæri sér neyð fátækra og örvæntingu þeirra sem þurfa á líffærum að halda. Börnin bjuggu öll á dreifbýlum svæðum og við mikla fátækt.

Hinum sex ára gamla Harun-ur-Rashid var rænt 22.apríl síðastliðinn. Fimm dögum síðar fannst hann í votlendi í Dhaka, höfuðborg Bangladesh, og búið var að selja úr honum nýrun. Þrír menn voru í kjölfarið handteknir en hafa enn ekki verið ákærðir.

Fjölskylda drengsins býr í Tebaria, en þar ríkir mikil fátækt og slík voðaverk algeng. Faðir drengsins segir í samtali við fréttastofu Al Jazeera að hann óttist að ekkert muni breytast í þessum málum, of mikil spilling ríki. Það sé daglegt brauð að fólki sé rænt og að fólk gangi það langt að selja sjálft úr sér líffærin, bæði vegna fátæktar og ótta. Hinir fátæku hafi ekki tök á að ganga á eftir málinu sökum fjár- og tímaskorts, þar á meðal hann sjálfur.

Í frétt Al Jazeera segir að lögreglu gangi hvorki né reki í að uppræta samtök sem stunda slíkan iðnað, sem fari stigvaxandi frá ári til árs. Lögregla neiti alfarið að tjá sig um málið, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir fjölmiðla. Faðir drengsins segir það ekki koma sér á óvart, stjórnvöld leyfi slíkum glæpasamtökunum að þrífast.

Nýrun eru sögð verðmætust og eru jafnan seld til vel efnaðra einstaklinga frá Vesturlöndum eða Mið-Austurlöndum sem greiða fyrir þau tugi milljóna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×