Viðskipti innlent

Lífeyrissjóðsfé hleypt úr höftum: Fá að fjárfesta fyrir minnst 13 milljarða á mánuði erlendis

Ingvar Haraldsson skrifar
Seðlabankinn rýmkar um fjárfestingar lífeyrissjóða erlendis.
Seðlabankinn rýmkar um fjárfestingar lífeyrissjóða erlendis. Vísir/Andri Marinó
Seðlabankinn hefur ákveðið að heimila íslenskum lífeyrissjóðum að fjárfesta fyrir 40 milljarða króna erlendis á næstu þremur mánuðum eða til septemberloka.

Um umtalsverð rýmkun á fjárfestingaheimild lífeyrissjóða erlendis er að ræða en síðasta árið hafa þeir samtals fengið að fjárfesta 40 milljörðum króna á erlendri grundi. Seðlabankinn er með til skoðunar að heimila lífeyrissjóðum að fjárfesta umfram þá 40 milljarða sem heimild hafi verið veitt fyrir nú verði gjaldeyrisinnstreymi mikið næstu mánuði.

Már Guðmundsson seðlabankastjóri hefur áður sagt að til álita komi að hleypa lífeyrissjóðum alveg út úr gjaldeyrishöftum að loknu gjaldeyrisútboði Seðlabankans sem fór fram um miðjan júní.

Gjaldeyrisinnstreymi það sem af er þessu ári, ásamt minni óvissu um þróun greiðslujafnaðar í framhaldi af aflandskrónaútboði og nauðasamningum slitabúa, hefur skapað svigrúm til frekari fjárfestingar lífeyrissjóða og annarra vörsluaðila séreignarsparnaðar erlendis að sögn Seðlabankans.

„Eins og áður eru rökin fyrir undanþágunni þau að þjóðhagslegur ávinningur fylgir því að gera lífeyrissjóðunum kleift að bæta áhættudreifingu í eignasöfnum og minnka uppsafnaða erlenda fjárfestingarþörf þeirra þegar fjármagnshöft verða losuð á innlenda aðila. Þar með er dregið úr hættu á óstöðugleika í gengis- og peningamálum við losun fjármagnshafta. Til lengri tíma litið hafa þessar auknu heimildir sjóðanna hverfandi áhrif á gjaldeyrisstöðuna því gera má ráð fyrir að gjaldeyriskaup lífeyrissjóðanna á næstu mánuðum muni draga úr þörf þeirra til gjaldeyriskaupa í framtíðinni,“ segir Seðlabankinn.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×