Viðskipti innlent

Lífeyrissjóðir fá að fjárfesta fyrir tíu milljarða til viðbótar erlendis

ingvar haraldsson skrifar
Már Guðmundsson seðlabankastjóri.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri. vísir/vilhelm
Seðlabanki Íslands hefur ákveðið að veita lífeyrissjóðum og öðrum innlendum vörsluaðilum séreignarlífeyrissparnaðar undanþágu frá gjaldeyrishöftum til að fjárfesta tíu milljörðum króna erlendis til loka júní.

Lífeyrissjóðir fengu heimild til að fjárfesta fyrir tíu milljarðar króna á síðari helmingi síðasta árs og tuttugu milljarða á fyrstu þremur mánuðum ársins.

Seðlabankinn segir gjaldeyrisinnstreymi það sem af er þessu ári ásamt minni óvissu um þróun greiðslujafnaðar eftir uppgjör slitabúa föllnu bankanna hafi skapað svigrúm til frekari fjárfestingar lífeyrissjóða erlendis.

Seðlabankinn sé enn að safna gjaldeyri vegna fyrirhugaðs útboðs vegna aflandskróna og losunar hafta á innlenda aðila. Því hafi verið ákveðið að halda erlendum fjárfestingar­heimildum lífeyrissjóðanna óbreyttum á mánaðar­grundvelli.

„Eins og áður eru rökin fyrir undanþágunni þau að þjóðhagslegur ávinningur fylgir því að gera lífeyrissjóðunum kleift að bæta áhættudreifingu í eignasöfnum og minnka uppsafnaða erlenda fjárfestingarþörf þeirra þegar fjármagnshöft verða losuð. Þar með er dregið úr hættu á óstöðugleika í gengis- og peningamálum við losun fjármagnshafta,“ segir í tilkynningu á vef Seðlabankans.

Þá hafi hinar auknu heimildir sjóðanna hverfandi áhrif á gjaldeyrisstöðu landsins til lengri tíma litið því gera megi ráð fyrir að gjaldeyriskaup lífeyrissjóðanna á næstu mánuðum muni draga úr þörf þeirra til gjaldeyriskaupa í framtíðinni.

Fjárfestingarheimildinni verður skipt á milli lífeyrissjóðanna og annarra vörsluaðila með þeim hætti að annars vegar verður horft til samtölu eigna, sem fær 80% vægi, og hins vegar til iðgjalda að frádregnum lífeyrisgreiðslum, sem fær 20% vægi. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×