Viðskipti innlent

Lífeyrissjóðir borga fyrir hlut í Arion banka með ríkisskuldabréfum

Hörður Ægisson skrifar
Útboð á þeim hlut sem eftir verður í eigu Kaupþings, um 30-40%, verður í fyrsta lagi í maí eða júní.  Fréttablaðið/eyþór
Útboð á þeim hlut sem eftir verður í eigu Kaupþings, um 30-40%, verður í fyrsta lagi í maí eða júní. Fréttablaðið/eyþór
Íslenskir lífeyrissjóðir sem hyggjast kaupa samanlagt um 20 til 25 prósent í Arion banka áforma að greiða að stærstum hluta fyrir eignarhlutinn með ríkisbréfum í þeirra eigu. Samkvæmt heimildum Markaðarins hefur Kaupþing, sem er að ganga frá sölu á Arion banka í lokuðu útboði, samþykkt að lífeyrissjóðirnir geti framselt til félagsins íslensk ríkisskuldabréf sem greiðslu fyrir kaupum þeirra á hlut í bankanum. Þetta þýðir að lífeyrissjóðirnir munu þá ekki þurfa að selja skráð hlutabréf eða ráðstafa hluta af árlegu hreinu innflæði sínu til að fjármagna kaupin í Arion banka.

Greint var frá því í forsíðufrétt Fréttablaðsins fyrir viku að Kaupþing væri nú á lokametrunum með að selja 40 til 50 prósenta hlut í Arion banka til bandarískra fjárfestingarsjóða og íslenskra lífeyrissjóða. Kaupverðið mun nema á bilinu 70 til 90 milljörðum íslenskra króna, eða sem jafngildir genginu rúmlega 0,8 miðað við bókfært eigið fé Arion banka. Söluandvirðið færi í að gera upp 84 milljarða veðskuldabréf sem Kaupþing gaf út til íslenska ríkisins í ársbyrjun 2016.

Áformað er að fjórir bandarískir fjárfestingarsjóðir kaupi allt að 25 prósenta hlut í bankanum en að minnsta kosti tveir þessara sjóða – Taconic Capital og Och-Ziff Capital – eru jafnframt á meðal kröfuhafa Kaupþings. Enginn einn þeirra verður með meira en 10 prósenta hlut í Arion banka. Seðlabankinn samþykkti í lok síðustu viku beiðni sjóðanna um undanþágu frá höftum vegna útgáfu afleiðusamninga til að verja sig gagnvart gengisþróun krónunnar í tengslum við fyrirhuguð kaup í bankanum.

Gert er ráð fyrir því að þrír af fjórum stærstu lífeyrissjóðum landsins – Lífeyrissjóður verslunarmanna, Gildi lífeyrissjóður og Birta – muni meðal annars standa að baki þeim hópi lífeyrissjóða sem hyggst kaupa hlut í bankanum í lokuðu útboði. Á þessari stundu liggur þó ekkert fyrir um endanlegan fjölda þeirra sjóða sem hyggjast fjárfesta í bankanum, þar sem slíkar tillögur hafa enn ekki verið lagðar fyrir stjórnir lífeyrissjóðanna. Ef sjóðirnir kaupa samtals um 25 prósent í Arion banka munu þeir greiða samanlagt um 45 milljarða fyrir þann hlut.

Kaupsamningar við bandarísku sjóðina og lífeyrissjóðina eru mjög langt komnir og gætu viðskiptin klárast fljótlega í þessum mánuði, mögulega strax í næstu viku, samkvæmt heimildum Markaðarins. Á meðal fyrirvara sem enn á eftir að ganga frá í samningunum er tímalengd á þeim söluhömlum sem verða á hlutnum sem sjóðirnir munu kaupa í Arion banka. 

Frétt birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×