Skoðun

Lífeyrismál

Kristján Elíasson skrifar
Þegar ég hóf mitt ævistarf sem sjómaður fyrir svo mörgum árum að ég nenni ekki að telja þau, þurfti ég að fara að borga skatta, nokkuð sem ég hafði ekki hugmynd um hvað var, fyrr en einhver góður skipsfélagi minn útskýrði fyrir mér, að skattar væru ákveðið hlutfall af laununum mínum sem rynni til ríkissjóðs til þess að hægt væri að reka ýmsa opinbera þjónustu s.s. sjúkrahús, skóla og vegakerfið, svo eitthvað sé nefnt, og lifeyriskerfið.

„Lífeyriskerfið“, hváði ég.

Félaginn útskýrði það frekar og sagði að ákveðið hlutfall af skattinum færi til þess að hægt væri að greiða gamla fólkinu ellilífeyrir, svo það sylti ekki í hel eða sligaði fjölskyldur sínar með tilveru sinni, komið á gamals aldur, farlama, og hætt að vinna.

Þetta fannst mér rosalega kúl; maður verður bara á launum þegar maður verður gamall og slappar af og hlustar á rokk allan sólarhringinn!!

Á þessum árum var skylda að kaupa sparimerki og ekki hægt, nema með smá svindli að leysa þau út fyrr en maður var orðinn 21. árs, en þá átti maður að fara að byggja og nota sparnaðinn í það, fjárfesta í steinsteypu.

Svo kom lífeyrissjóðurinn, 10%!! Þá fannst mér nú fokið í flest skjól. Hvernig átti ég einhvern tíma að hafa efni á að kaupa mér trommusett, þegar allt var hrifsað af manni í formi allskonar gjalda og skatta. En áðurnefndur félagi sagði að ég þyrfti bara að greiða 4% í lífeyrissjóðinn, atvinnuveitendur myndu greiða 6%, í stað þess að hækka launin. Svo þegar ég hætti að vinna, vegna aldurs, fengi ég greitt úr sjóðnum ákveðna upphæð á mánuði.

„Og líka frá ríkinu?? Þú veist þetta sem tekið er af skattinum?“ spurði ég vantrúa.

Félaginn hélt það nú!!

Nú runnu á mig, ekki bara tvær grímur; það helltust yfir mig vörubílsfarmar af grímum og ekki nóg með það, heldur bætti félaginn því við að í framtíðinni myndi vinnuvikan styttast og verða kannski 30 tímar og fólk færi á eftirlaun um sextugt!!

Það lá við að ég óskaði þess að ég væri orðinn sextugur. Þvílíkt sældarlíf sem var framundan; ekkert að vinna og böns af seðlum. Það hrúguðust upp elliheimili og lúxusinn þar var eins og á hótelum. Og svo gæti maður ábyggilega líka flatmagað á Ríveríunni innan um allar Kládíur, Birgittur og Soffíur heimsins.!!

Blessuð verðbólgan

Svo liðu árin og verðbólgan geisaði um landið. Gengið var fellt ótt og títt yfirleitt til að bjarga sjávarútveginum og allt sem fólk hafði sparað sér gufaði upp og það var ekki lengur skylt að kaupa sparimerki, enginn heilvita maður lagði fyrir, heldur notaði aurana sína til að keppast við að ná í síðasta kílóið af lambakjötinu frá í fyrra því víst var að nýtt kjöt myndi hækka, það var algjörlega óþekkt á þessum árum að eitthvað væri ódýrara í dag en það var í gær. Sama átti við þegar smjörfjallið var orðið óþægilega hátt. Þó gerðist það eitt árið að einhverjum stjórnvitringnum datt í hug að lækka smjörið í stað þess að hækka það og einhverjir kaupahéðnar, sem birgðu sig upp af smjöri til að selja á hækkuðu verði sátu uppi með það, því auðvitað keypti fólkið smjörið á lága verðinu frekar en af þessum flokksdílerum. (Þetta var áður en fólk varð fífl). Vöruhækkanir voru eins og óstöðvandi tímavél. Launahækkanir hurfu út um gluggann án þess að nokkuð væri að gert. Ef so illa(?) vildi til að eitthvað var eftir í buddunni þegar allt var greitt var keypt þvottavél, eða ísskápur, eða bara eitthvað. Vissara að nota tækifærið, þetta hækkaði allt í nánustu framtíð.

Lífeyrissjóðurinn brann upp og kom fyrir að menn ættu minna en engin réttindi til greiðslu úr sjóðnum við starfslok. Ellilífeyrinn, sem fólk fékk er það hætti að vinna, brann líka upp á verðbólgubálinu og lúxusinn á elliheimilunum var skorinn niður.

Vinnuvikan lengdist, ef eitthvað var. Áður hafði fyrirvinnan verið ein, húsmóðirin vann heima við og ól upp börnin á meðan húsbóndinn skrapp í vinnuna í 8 tíma. Nú dugði ekki til að hjónin ynnu bæði úti frá heimilinu sína átta tímana hvort, þau urðu helst að vinna á kvöldin líka og um helgar, geyma börn og heimili í umsjá foreldra, sem hætt voru að vinna sökum aldurs og áttu ekki kost á að komast að á elliheimili. Þar var nefnilega allt orðið fullt, mest vegna þess að bygging elli- og hjúkrunarheimila hafði dregist aftur úr.

Stjórnmálamenn reyndu þó að telja fólki trú um að allt væri á fullu að „tryggja öldruðum hamingjuríkt ævikvöld“ það væru bara svo stórir árgangar að verða gamlir, þeir poppuðu bara allt í einu upp þessir árgangar, öllum að óvörum.

Úpps, alltof margir gamlir

Nú býr gamla fólkið heima hjá sér fram í rauðan dauðann og finnst það skárra heldur en að þurfa að kúldrast á hjúkrunarheimili kannski á sitt hvoru landshorninu. Það er svo skrítið að þrátt fyrir fólksfjöldann á höfuðborgarsvæðinu hefur hjúkrunarheimilum þar ekki fjölgað í takt við „stóru árgangana“ sem poppuðu bara allt í einu upp, en samt er eins og stjórnmálamenn hafi búist við því að þessir stóru árgangar myndu koma fram úti á landi og eru dæmi um að í sveitarfélögum, sem varla teljast með í stóru myndinni, sé að finna hjúkrunarheimili sem rúmar kannski alla sem búa á staðnum, unga og aldna og jafnvel alla íbúa næsta krummaskuðs líka, sem er óþarfi því þar er kannski annað hjúkrunarheimili. Því hefur verið gripið til þess ráðs að bjóða jafnvel fárveiku fólki á höfuðborgarsvæðinu, sem þar hefur alið manninn alla sína ævi, að flytja út á land, í eitthvert krummaskuðið, kannski bara annað hjónanna og hitt, sem eftir verður, þarf að hírast í tveggja eða þriggja manna herbergi með bláókunnugu fólki. Og einu samskiptin sem hjónin hafa við umheiminn og hvort annað er í gegn um síma og sá kostnaður er gjarnan skorinn niður svo hægt sé að eiga fyrir nauðsynlegum lyfjum og smám saman gleymist þetta gamla fólk og það gleymir hvort öðru.

Þetta finnst sumum bara allt í lagi. Og ekki nóg með það, og hér kem ég að tilefni þessara skrifa minna; það er samspili ellilífeyris og greiðslna úr lífeyrissjóði annarsvegar og kostnaði við vist á elli- og hjúkrunarheimilum. Þar er sko pottur brotinn, mulinn öllu heldur.

Jón og Danni

Til þess að skýra mál mitt tek ég dæmi af tveimur einstaklingum, nefni þá Jón og Danna. Jón var lengi bóndi og síðan rak hann sjoppu um ára bil. Hann var því atvinnurekandi með sjálfan sig í vinnu og borgaði ekki í lífeyrissjóð fyrr en það varð skylda að menn með eigin rekstur borguðu í slíkan sjóð og þá borgaði hann eins lítið og hann mögulega komst upp með. Hann stólaði á að við starfslok ætti hann nægt fé eftir af gróða sjoppunnar til að sjá sér farborða.

Danni var sjómaður alla sína ævi,(eins og ég), og borgaði í lífeyrissjóð frá stofnun, hafði góð laun, borgaði alla tíð hæstu skatta sem hægt var að leggja á menn og 10%, síðar 12%, teknanna fóru í lífeyrissjóð.

Um það bil sem þessir menn voru að ljúka starfsævi sinni verður hið margnefnda hrun. Jón í sjoppunni tapar öllu sparifé sínu sem bundið var í hlutabréfum í Landsbankanum og sjoppan var veðsett vegna lána barnanna,(sem voru að kaupa sér nýtt innbú í nýja húsið í sólarlandaferð á Mallorka), en Danni á sitt í lífeyrissjóðnum.

Það vill svo skemmtilega til að þeir fá í sama mánuði pláss á sama hjúkrunarheimilinu og verða þeirrar (vafasömu?) ánægju aðnjótandi að deila saman herbergi.

Jón fær engar greiðslur úr lífeyrissjóði og einu tekjur hans er ellilífeyrir frá ríkinu, 200 þúsund á mánuði. Hann fær hann að vísu ekki útborgaðan, hann fer til að greiða fyrir herbergið en hann fær 50 þúsund krónur í vasapeninga frá ríkinu í mánuði hverjum.

Danni fær 300 þúsund krónur úr lífeyrissjóðnum og vegna þess að hann fær svona mikið skerðist ellilífeyririnn sem nemur tekjum umfram ellilífeyrinn og tekjutrygging fellur niður líka. Það sem eftir stendur af ellilífeyrinum og allur lífeyrissjóðurinn fara til greiðslu fyrir herbergið, af miskunn fær Danni þó að halda eftir um 70 þúsund krónum af lífeyrissjóðsgreiðslunni, til að eiga fyrir brýnustu nauðsynjum, klippingu og fótsnyrtingu og því líku, því helvítis líkþornin gufa ekki upp þótt á elliheimili sé komið.

Jón greiðir um 150 þúsund fyrir herbergið.

Danni greiðir um 300 þúsund fyrir herbergið.

Réttlátt?

Auðvitað ekki. Til hvers að vera að greiða í lífeyrissjóð þegar þeir sem það gera ekki bera að lokum jafn mikið úr býtum og kannski meira, því ekki greiða þeir skatt af engu og fá 50 þúsundkall á mánuði í verðlaun frá ríkinu. En þegar maður hugsar málið þá er þetta virkilega klókt plan hjá þeim sem komu því á legg; að láta lýðinn safna sér í sjóð og hirða hann síðan af honum með nokkrum flóknum lagasetningum. Þannig er hægt að hækka skatta og láta lýðinn standa í þeirri meiningu að hann sé að spara til elliáranna. Fyrir þá sem lenda inni á hjúkrunarheimilum er það svo fjarri sanni. Þar er allt þeirra sparifé rifið af þeim og notað til að borga fyrir þá sem höfðu ekki döngun í sér til að spara, eða var hreinlega andskotans sama, eða eru bara hluti af skítapakkinu sem vann allt svart og lét aðra um að borga skólann fyrir börnin þeirra, hjúkrunina fyrir foreldra þeirra og vegina undir bílana þeirra.

Á ég nokkuð að borga?

Með ofangreint í huga er það engin furða að fólk sé að velta því fyrir sér að hætta að borga í lífeyrissjóð alveg fyrir utan það hvernig fjárglæframenn í sjóðunum hafa farið, og fara, með fé i eigu sjóðsfélaga. Það er með ólíkindum hvernig svallað hefur verið með sjóðina og eigur þeirra, svo mjög, að meira að segja mér, sem aldrei hef kunnað að fara með fé, blöskrar sukkið og svínaríið. Finnst einhverjum skrítið að fólk sé að íhuga að hætta að borga í lífeyrissjóð? Það sem það síðan fær úr sjóðunum við starfslok er allt annar handleggur og í raun svo skammarlegt að það jaðrar við glæp.

Spillt gamalt fólk?!!

Annað grín er svo félög eldri borgara. Þar veljast gjarnan til forystu útbrunnir varaþingmenn og varaborgar/bæjarfulltrúar og harmonikkuleikarar,(það er engu líkara en sumir haldi að gömludansarnir séu ópíum gamla fólksins), og svona afdankað lið sem telur sjálfum sér trú um að það viti meira en almúginn um mál aldraðra, vegna fyrri starfa sem vara-eitthvað, og ekkert aldrað fólk þorir að æmta né skræmta og benda á að ef þetta vara-eitthvað fólk hefði sinnt vinnunni sinni þá væru kjör aldraðra kannski betri en þau eru í dag.

Látum gamalt fólk borga brúsann

Talandi um pólitíkusa og þeirra aðkomu að málefnum aldraðra; Fyrir mörgum árum var byrjað að leggja á sérstakan skatt vegna bygginga hjúkrunar- og elliheimila og skyldi hann notaður til að fjármagna slíkar byggingar, sem var svo auðvitað svikið, skatturinn fór eiginlega í allt annað en til að byggja húsnæði fyrir gamalt fólk, skatturinn var meira að segja notaður til að gefa út áróðursbækling fyrir einn stjórnmálaflokkinn!! Það er lýsandi dæmi um hve andskotans sama stjórnmálamönnum, hvar sem þeir teymast í flokki, er um málefni aldraðra. Mér kæmi ekki á óvart þó skatturinn hefði verið notaður til að fjármagna enn meiri spillingu. Annað dæmi um umhyggjuleysi stjórnmálamanna fyrir vandamálum aldraðra er skerðingin sem aldraðir,(af öllum!!), urðu fyrir í Hruninu og lofað var að yrði leiðrétt þegar rofaði til í efnahagsmálunum. Enn hefur ekki rofað nógu mikið til, svo hægt sé að leiðrétta þessa skerðingu en samt nógu mikið til að leiðrétta laun þingmanna, ráðherra, dómara, ráðuneytisstjóra, skrifstofustjóra ráðuneyta og allskyns pótintáta sem eiga svo bágt að þjóðin grætur sig í svefn á hverju kvöldi yfir kjörum þessara opinberu (glæpa)-manna.

Jafnvel þeir sem settu þjóðfélagið á hausinn með óvarlegum fjárfestingum og hreinlega fjárglæfrum,(lesist glæpum), hafa fengið „leiðréttingu“. Kannski er ráð fyrir stjórnmálamenn að taka ofan rafsuðugleraugun sem þeir hafa límt framan í sig. Og svo er auðvitað kapítuli út af fyrir sig, að þeir sem sukkuðu eins og enginn væri morgundagurinn og aldrei þyrfti að borga og hafa síðan grátið eins og útfararkerlingar yfir hlutskipti sínu; að þurfa að borga, þeir hafa fengið leiðréttingu, við hin, sem ekkert skuldum og aldraðir, sem geta ekki skuldað, (enginn treystir þeim til að borga af skuldum af því að þeir eiga varla ofan í sig eða á), við fengum sko enga leiðréttingu en við þurfum að borga fyrir þá sem voru í sukkinu. En mér er svo sem ekki vorkunn, ég hef tekið þátt í að halda uppi allskyns ónytjungum á vegum ríkisins alla mína ævi, að mér skilst.

Tökum út úr lífeyrissjóðnum

Nú, þegar styttist í ævikvöldinu, sólarlagið er bara hinu megin við hornið, snýst málið um hvenær best er að byrja að taka út úr lífeyrissjóðnum. Á að bíða með það til sjötugs, þegar maður er búinn að gleyma til hvers maður var að spara, eða á að byrja um sextugt þegar líkamsvessarnir flæða enn um skrokkinn sem aldrei fyrr? Auðvitað á maður að byrja eins fljótt og hægt er að taka út lífeyrissparnaðinn, lifa lífinu, láta eitthvað eftir sér, allavega áður en lífeyrissjóðurinn fer allur í að borga fyrir elliheimilið.




Skoðun

Sjá meira


×