Innlent

Lifandi jólatré eiga undir högg að sækja

Stefán Árni Pálsson skrifar
11,7% sögðust ekki ætla að vera með jólatré á sínu heimili í ár.
11,7% sögðust ekki ætla að vera með jólatré á sínu heimili í ár. vísir/anton brink
Lifandi jólatré virðast eiga undir högg að sækja hvað vinsældir varðar en MMR kannaði hvort það yrði jólatré á heimilum fólks þessi jólin.

Af þeim sem tóku afstöðu nú sögðust 32,4% ætla að vera með lifandi jólatré í ár, borið saman við 39,1% í desember 2012.

Aftur á móti sögðust fleiri ætla að hafa gervitré á sínu heimili þessi jólin. Af þeim sem tóku afstöðu nú sögðust 55,9% ætla að vera með gervitré, borið saman við 51,7% í desember 2012.

11,7% sögðust ekki ætla að vera með jólatré á sínu heimili í ár, borið saman við 9,2% í desember 2012.

Munur eftir búsetu, tekjum og stuðningi við stjórnmálaflokka.

Þeir sem búsettir voru á höfuðborgarsvæðinu voru líklegri til að segjast ætla að vera með lifandi jólatré en íbúar á landsbyggðinni voru líklegri til að segjast ætla að vera með gervitré.

Þannig sögðust 36,4% íbúa á höfuðborgarsvæðinu ætla að vera með lifandi jólatré, borið saman við 26,0% íbúa á landsbyggðinni. 65,9% íbúa á landsbyggðinni sögðust ætla að vera með gervitré á sínu heimili borið saman við 49,6% íbúa á höfuðborgarsvæðinu.

Hlutfall þeirra sem sagðist ætla að hafa lifandi jólatré hækkaði með auknum heimilistekjum. Af þeim sem tóku afstöðu og tilheyrðu tekjuhæsta hópnum (milljón á mánuði eða meira) sögðust 50,0% ætla að vera með lifandi jólatré, borið saman við 39,6% í tekjuhópnum 800-999 þúsund á mánuði, 33,0% í tekjuhópnum 600-799 þúsund á mánuði, 31,4% í tekjuhópnum 400-599 þúsund á mánuði, 16,8% í tekjuhópnum 250-399 þúsund á mánuði og 13,3% í tekjulægsta hópnum (undir 250 þúsund á mánuði).

mynd/mmr
Þeir sem studdu Samfylkinguna voru líklegri en stuðningsmenn annarra flokka til að segjast ætla að vera með lifandi jólatré. Af þeim sem tóku afstöðu og sögðust styðja Samfylkinguna sögðust 45,4% ætla að vera með lifandi jólatré, borið saman við 30,8% Pírata.

Stuðningsmenn Pírata voru ólíklegri en aðrir til að segjast ætla að vera með jólatré. Af þeim sem tóku afstöðu og studdu Pírata sögðust 71,1% ætla að vera með jólatré á sínu heimili í ár, borið saman við 96,1% framsóknarmanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×