Fótbolti

Liðsfélagi Balotelli: Hann vill ekkert með okkur hafa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mario Balotelli.
Mario Balotelli. Vísir/Getty
Það mátti svo sem búast við því að öskubuskuævintýri Mario Balotelli entist ekki lengi í Nice. Eftir frábæra byrjun virðist ítalski framherjinn vera búinn að koma sér í ónáð hjá liðsfélögunum.

Mario Balotelli skoraði átta mörk í fyrstu átta leikjum tímabilsins og Nice var öllum á óvörum í toppsæti frönsku deildarinnar. Það leit út sem að vandræðagemlingurinn Balotelli væri loksins búinn að finna sér stað við hæfi.

Nice hefur hinsvegar ekki haldið út (bara 3 sigrar í síðustu 9 leikjum) og Mario Balotelli hefur aðeins skorað einu sinni í síðustu fimm leikjum sínum. Það sem er kannski alvarlega er að liðsfélagarnir eru farnir að kvarta undan hegðun hans.

Miðjumaðurinn Valentin Eysseric er sá sem hefur gengið lengst í að gagnrýna hann og hann var ekki sáttur með Mario Balotelli eftir leik um helgina. Balotelli missti af honum þar sem hann lá heima með flensu.

„Fyrirgefið en ég er bara heiðarlegur,“ segir Valentin Eysseric við Bein Sports. Hann segir Balotelli fara sem dæmi í mikla fýlu þegar hann klúðrar færum á æfingum og talar þá við engan eftir æfingu.

„Það er undir honum komið að hugsa meira um liðið og það sem hjálpar okkur,“ sagði Eysseric.

„Það lítur út fyrir að hann (Balotelli) vilji bara ekkert með okkur hafa. Það eru mikil vonbrigði. Við gætum virkilega þegið hjálp frá honum í þessari baráttu,“ sagði Eysseric.

„Þjálfarinn heimtar að allir í liðinu leggi sitt á vogarskálarnar. Hann mun ekki sætta sig við að menn taki fótinn af bensíngjöfinni eins og við erum að sjá með Balotelli,“ sagði Eysseric.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×