Enski boltinn

Liðin á eftir Gylfa og félögum í töflunni safna orku í sólinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. Vísir/Getty
Gylfi Þór Sigurðsson og félagar í Swansea City halda kyrru fyrir í Wales á meðan liðin í næstu sætum fara öll suður á bogin nú þegar það er smá frí frá keppni í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Swansea er dottið út úr enska bikarnum og á því ekki leik um komandi helgi. Swansea er langt frá því að vera eina úrvalsdeildarliðið sem er úr leik.

Liðin sem eru í næstu sætum á eftir Swansea og í baráttunni við velska liðið um áframhaldandi veru í ensku úrvalsdeildinni fara öll í sól og sumar sunnar á hnettinum.

Stoke og Sunderland fara bæði til Dúbæ, Norwich fór til Abú Dabí og Newcastle flaug til La Manga á Spáni.

Gylfi Þór Sigurðsson og félagar þurfa aftur á móti að vera í Wales og undirbúa sig fyrir næsta leik sem er á móti Tottenham á White Hart Lane sunnudaginn 28. febrúar.

Swansea á það sameiginlegt með liðum Aston Villa, Leicester og Southampton að fljúga ekki suður á boginn en leikmenn toppliðs Leicester fengu vikufrí frá æfingum og hafa margir örugglega drifið sig í smá sól.

Swansea tapaði 1-0 á móti Southampton um síðustu helgi en það var fyrsta tap liðsins síðan á móti Sunderland 13. Janúar. Liðið lék fjóra leiki í röð án taps (2 sigrar og 2 jafntefli).

Gylfi náði heldur ekki að skora á móti Southampton en hann hafði skorað í tveimur leikjum á undan og í fimm af fyrstu sex deildarleikjum ársins.


Tengdar fréttir

Gylfi jafnaði fjórtán ára afrek Eiðs Smára

Gylfi Þór Sigurðsson skoraði um helgina sitt fimmta deildarmark á árinu 2016 og varð aðeins annar íslenski leikmaðurinn sem nær að skora fimm mörk í fyrstu sex leikjum nýs árs í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Gylfi: Vonandi held ég áfram að skora

Gylfi Þór Sigurðsson hefur verið sjóðheitur upp við mark andstæðinganna að undanförnu og skorað fimm mörk í síðustu sex deildarleikjum Swansea City.

Draumadagar Íslendinganna

Gylfi Þór Sigurðsson hefur skorað í fimm af fyrstu sex deildarleikjum Swansea á nýju ári og Fréttablaðið skoðar í dag bestu daga íslenskra leikmanna í deildinni í gegnum tíðina. Þrír leikmenn eru í sérflokki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×