Enski boltinn

Lið í ensku úrvalsdeildinni sætir rannsókn vegna peningafalsana

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Sigurðsson í leik á móti Watford um síðustu helgi.
Gylfi Sigurðsson í leik á móti Watford um síðustu helgi. Vísir/Getty
Forráðamenn ensku deildarinnar hafa nú sett af stað rannsókn á fjárhagsmálum enska úrvalsdeildarliðsins Watford eftir umfjöllun enska blaðsins The Telegraph.

Blaðamenn The Telegraph komust yfir upplýsingar um fölsuð skjöl sem voru notuð þegar Gino Pozzo eignaðist Watford fyrir 2014-15 tímabilið.

Skjölin sýndu fram á það að eignafélag Watford, Hornets Investment Ltd,  ætti nógu mikinn pening til að fá bankaábyrgð upp á sjö milljónir punda og gefa með því Gino Pozzo færi á að eignast félagið.

Í umfjöllun The Telegraph kemur fram að það séu engar upplýsinga um það að Gino Pozzo vissi sjálfur eitthvað um málið og að bréfið hafi verið sent í hans nafni.

Watford komst upp í ensku úrvalsdeildina það tímabil og er nú á sínu öðru tímabili í hóp þeirra bestu. Watford gæti misst stig eða fengið peningasekt vegna málsins.

Watford sagði blaðamönnum The Telegraph að það væri í gangi innanhússrannsókn á málinu.

Watford er eins og er í 9. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með tólf stig eftir níu leiki sem er tveimur stigum færri en Manchester United og einu stigi meira en Englandsmeistarar Leicester City.

Næsti leikur Watford er á móti Hull City um næstu helgi. Það er hætt við því að þetta mál dragi alla athyglina frá þeim leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×