Erlent

Leyniþjónustan brást skyldum sínum

Freyr Bjarnason skrifar
Julia Pierson viðurkenndi að leyniþjónustan hefði brugðist skyldum sínum við verndun Hvíta hússins.
Julia Pierson viðurkenndi að leyniþjónustan hefði brugðist skyldum sínum við verndun Hvíta hússins. Fréttablaðið/AP
Julia Pierson, yfirmaður leyniþjónustu Bandaríkjanna, viðurkenndi að stofnunin hefði brugðist skyldum sínum eftir að maður vopnaður hnífi komst óáreittur inn í Hvíta húsið og hljóp um helming þess áður en hann var yfirbugaður.

„Þetta er óásættanlegt,“ sagði Pierson, þegar hún var yfirheyrð af þingnefnd í Washington vegna atviksins. Hún lofaði því að fara yfir starfshætti stofnunarinnar og hvers vegna henni tókst ekki að stöðva manninn fyrr. Pierson gekkst við ábyrgð á því sem gerðist og sagði að þetta myndi ekki gerast aftur.

Hún hefur verið harðlega gagnrýnd vegna atviksins. „Ég vildi óska að þú hefðir verndað Hvíta húsið eins og þú varðir mannorð þitt hérna í dag,“ sagði fulltrúi demókrata við yfirheyrsluna.

Skömmu áður en hinn vopnaði maður stökk yfir girðinguna við Hvíta húsið báru tveir einkennisklæddir starfsmenn leyniþjónustunnar kennsl á hann frá fyrri samskiptum sínum við hann. Þeir töluðu samt ekkert við hann og létu yfirmenn sína ekki vita af því að maðurinn væri á svæðinu. Hann hafði verið stöðvaður 25. ágúst með litla exi skammt frá girðingu Hvíta hússins.

Barack Obama Bandaríkjaforseti var ekki í Hvíta húsinu, þegar maðurinn ruddist þangað inn og ekki heldur fjölskylda hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×