Erlent

Leyniskytta felldi mann úr þriggja kílómetra fjarlægð

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Leyniskyttur að störfum í Mósúl. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint.
Leyniskyttur að störfum í Mósúl. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint. Vísir/Getty
Leyniskytta kanadísku sérsveitarinnar skaut vígamann úr röðum Íslamska ríkisins af 3540 metra færi. Aldrei áður hefur manni verið grandað af leyniskyttu úr viðlíka fjarlægð. Vegalengdin er rúmlega kílómetra lengri en fyrra met sem sett var árið 2009.

Kanadíski herinn hefur staðfest skotið í samtali við fjölmiðla vestanhafs en gefa ekki upp nánari upplýsingar vegna öryggishagsmuna.

Samkvæmt heimildum fjölmiða ytra var skotinu hleypt af úr háhýsi í Írak í síðasta mánuði.

Myndbandsupptökur og önnur gögn séu til sem staðfesti skotið sem var liður í vörn gegn árás vígamanna á írakskar öryggissveitir.

Skot af þessu færi er gífurlega flókið og krefst töluverðra útreikninga í ljósi vegalengdarinnar, flugtíma kúlunnar sem talin er hafa verið um 10 sekúndur, veðra og vinda - sem og boglínu jarðarinnar.

Fyrra met átti breska leyniskyttan Craig Harrison. Skot hans árið 2009 grandaði manni af 2475 metra færi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×