Erlent

Leyniskjöl meðal tölvupósta Hillary Clinton

Samúel Karl Ólason skrifar
Hillary Rodham Clinton.
Hillary Rodham Clinton. Vísir/EPA
Leyndarmál ríkisins fundust í tölvupóstum Hillary Clinton, sem geymdir voru á einkavefþjóni. Sjálf hefur Clinton ekki sagst hafa sent leynigögn í gegnum vefþjóninn sem var á heimili hennar og var ekki nægilega varinn. Talsmaður utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna segir þó að gögnin hafi ekki verið leyndarmál þegar Clinton sendi þau.

Gögnin voru skilgreind sem „Top secret“, sem er eitt hæsta sig leyndar í Bandaríkjunum.

Notkun Clinton á eigin vefþjóni á meðan hún var utanríkisráðherra hefur sætt mikilli gagnrýni. Þá hefur það verið notað gegn henni í kosningabaráttunni í forvali fyrir forsetaframboð Demókrataflokksins.

Tölvupóstar hennar hafa verið birtir á undanförnum misserum. Samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar hafa þó ekki verið birtar 37 blaðsíður, sem á eru upplýsingar um leynilegar aðgerðir Bandaríkjanna eins og hleranir og drónaárásir.

Ekki liggur fyrir hvort að Clinton hafi sent leynigögn frá sér eða fengið þau send. Talsmaður framboðs hennar segir að birta eigi gögnin þar sem þau hafi ekki verið talin leyndarmál á sínum tíma.

Alríkislögregla Bandaríkjanna er með málið til rannsóknar, en sérfræðingar sem AP ræddi við segja ólíklegt að hún verði ákærð vegna málsins, miðað við þær upplýsingar sem fyrir liggja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×