Erlent

Leynilegar friðarviðræður milli afganskra stjórnvalda og talibana

Atli Ísleifsson skrifar
Fimmtán ár eru nú liðin frá því að talibanar voru hraktir frá völdum í Afganistan.
Fimmtán ár eru nú liðin frá því að talibanar voru hraktir frá völdum í Afganistan. Vísir/AFP
Fulltrúar talibana og afganskra stjórnvalda hafa átt tvo leynilega samningafundi í Katar á síðustu vikum. Vonir standa til formlegar friðarviðræður verði teknar upp á nýjan leik.

Heimildarmaður AFP innan afgönsku stjórnarinnar segir að einn þeirra sem hafi sótt fundina hafi verið mulla Abdul Manan Akhund, bróðir talibanaleiðtogans mulla Omar sem lést árið 2013. Sömuleiðis á fulltrúi Bandaríkjastjórnar að hafa verið viðstaddur fundina.

Hvorki Bandaríkjastjórn né leiðtogar talibana hafa tjáð sig opinberlega um fréttirnar, en fimmtán ár eru nú liðin frá því að talibanar voru hraktir frá völdum í Afganistan.

Pakistönsk stjórnvöld, sem hafa stutt við bakið á talibönum, hafa boðið til fjölda funda á undanförnum misserum með það að markmiði að koma skriði á friðarviðræðurnar á nýjan leik. Fundirnir hafa þó ekki gefið góða raun.

Viðræður sigldu svo í strand þegar Bandaríkjaher banaði talibanaleiðtoganum mulla Akthar Mansour í drónaárás í maí síðastliðinn.

Fulltrúar pakistanskra stjórnvalda hafa ekki verið viðstaddir leynilegu fundina í Katar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×