Erlent

Leyndardómar bláu fjölskyldunnar í Kentucky opinberaðir

Fugate fjölskyldan
Fugate fjölskyldan
Læknar vissu ekki sitt rjúkandi ráð þegar Benjamin litli Stacy fæddist árið 1975. Hann var fluttur til greiningar á Háskólasjúkrahúsinu í Kentucky þar sem sérfræðingar rannsökuðu drenginn. Niðurstaðan var ljós: drengurinn var blár.

Læknarnir gátu ómögulega komist að niðurstöðu um hver orsök bláa litarins væri. Þeir ákváðu að gefa piltinum blóð í þeirri von um að hann fengi eðlilegan lit. Amma Benjamins kom síðan askvaðandi á spítalann og útskýrði fyrir læknum að drengurinn væri í raun heilbrigður.

Í ljós kom að forfaðir Benjamins var Martin Fugate. Hann bjó með fjölskyldu sinni á afskekktu svæði í Kentucky við upphaf 19. aldar. Martin og fjölskylda hans voru öll himinblá á litinn.

Nútíma læknisvísindi hafa varpað ljósi á bláu fjölskylduna í Kentucky. Martin og eiginkona hans báru bæði með sér stökkbreytt gen sem veldur litabreytingunni. Stökkbreytingin blómstraði í fjölskyldunni enda voru skyldmennagiftingar sjálfsagt mál þar á bæ. Blá-genið varð því ríkjandi í kjölfar skyldleikaræktunar.

Erfðasjúkdómurinn er kallaður methemóglómíndreyri og afar sjaldgæfur.

Fugate fjölskyldan var ávallt einangruð frá umheiminum og er lítið vitað um lifnaðarhætti þeirra. Þó eru til ljósmyndir sem sýna meðlimi fjölskyldunnar.

Hægt er að meðhöndla ástandið upp að vissu marki. Með því að sprauta fólkið með metýlenbláu litarefni var hægt að draga úr blámanum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×