Innlent

Leyfi Sorpu til urðunar að Álfsnesi fellt úr gildi

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Frá urðun í Álfsnesi.
Frá urðun í Álfsnesi. vísir/valli
Úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál hefur fellt úr gildi ákvörðun Umhverfisstofnunar, frá í ágúst 2014, um að veita starfsleyfi fyrir Sorpu í Álfsnesi að því er varðar urðun. Urðunarstaðurinn tekur við nær öllu sorpi af höfuðborgarsvæðinu sem á að urða.

Ástæðan fyrir ógildingunni er sú að í aðalskipulagi Reykjavíkurborgar 2010-2030 stendur að stefnt sé að því að hætta að urða rusl í Álfsnesi innan 4-5 ára frá undirritun eigendasamkomulags. Það samkomulag var undirritað 25. október 2013. Starfsleyfi Sorpu til urðunar var hins vegar til ársloka 2020. Taldi nefndin að Umhverfisstofnun væri bundin af áðurnefndu eigendasamkomulagi og hefði því ekki getað veitt svo langt starfsleyfi. Því var það fellt úr gildi.

„Sorpa er í raun bara þolandi í þessu máli,“ segir Björn H. Halldórsson, framkvæmdastjóri Sorpu. „Við uppfyllum öll skilyrði starfsleyfis og það er ekki við okkur að sakast.“

Að sögn Björns myndu menn fljótt verða varir við það ef það dregst á langinn að Sorpa fái starfsleyfi að nýju þar sem enginn annar á höfuðborgarsvæðinu tekur við úrgangi til förgunar.

„Við höfum nú þegar sótt um undanþágu frá starfsleyfi til umhverfisráðherra og vonum að það fari í gegn á stuttum tíma,“ segir Björn.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×