Innlent

Lestu bréfið: Jónas Hallgrímsson fékk hálfa ölmusu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Jónas Hallgrímsson prýrðir sem kunnugt er tíu þúsund króna seðilinn.
Jónas Hallgrímsson prýrðir sem kunnugt er tíu þúsund króna seðilinn. Vísir/GVA
Rannveig Jónsdóttir, móðir Jónasar Hallgrímssonar, sótti um ölmusu fyrir son sinn sumarið 1823. Hlaut Jónas námsstyrk til náms við Bessastaðaskóla sem var eini framhaldsskóli landsins á þeim tíma. Þar voru jafnan á bilinu fjörutíu til sextíu nemendur.

Þjóðskjalasafn Íslands birtir á Facebook-síðu sinni í dag bréf frá móður Jónasar þar sem óskað er eftir 40 ríkisdölum árlega. Sótt var um til biskups og veitti hann Jónasi hálfa ölmusu eða 20 ríkisdali.

Jónas, sem fæddist árið 1807, stundaði nám við skólann árin 1823-1829. Hann lést í Kaupmannahöfn árið 1845.

Bréfið má sjá hér að neðan

Háeðla og háæruverðugi herra biskup

Þar sem kóngleg náð hefur veitt gáfuðum, fátækum piltum gefins uppeldi eður ölmusu við latínuskólann á Bessastöðum til að framast til mennta og menningar föðurlandinu til nytsemdar, þá bið ég sem fátæk prestsekkja auðmjúkast yðar háæruverðugheit að sonur minn, Jónas Hallgrímsson 16 ára gamall, að annarra sögn (sem honum hafa kennt nokkuð) gætinn og gáfaður unglingur, mætti fyrir yðar manngæsku, samt fulltingi, verða inntekinn á heila eða hálfa ölmusu á Bessastöðum næstkomandi haust, þar efni mín leyfa mér ekki að geta haldið honum til lærdómsiðkana, en þykir ísjárvert að hann fátæktar vegna þurfi að hætta við svo búið, mætti ég dirfast til að biðja yðar háæruverðugheit um andsvar hvort ég kunni bænheyrð að verða eður ei.

Í stærstu undirgefni, Steinstöðum, þann 2. júlí 1823

Rannveig Jónsdóttir

Skólaölmusa fyrir Jónas HallgrímssonBessastaðaskóli (1805-1846) var eini framhaldsskóli landsins á sinni tíð. Þar voru...

Posted by Þjóðskjalasafn Íslands on Monday, July 6, 2015



Fleiri fréttir

Sjá meira


×