Erlent

Lestarslysið í Bæjaralandi rakið til mannlegra mistaka

Atli Ísleifsson skrifar
Allir ellefu sem létust voru karlmenn á aldrinum 24 til 59 ára.
Allir ellefu sem létust voru karlmenn á aldrinum 24 til 59 ára. Vísir/AFP
Saksóknari í Þýskalandi segir að lestarslysið í Bæjaralandi síðastliðinn þriðjudag hafi verið rakið til mannlegra mistaka. BBC greinir frá þessu.

Ellefu manns létust og rúmlega áttatíu slösuðust, þar af átján alvarlega, þegar tvær lestir rákust saman á um 100 kílómetra hraða á spori milli Bad Aibling og Rosenheim, um sextíu kílómetrum suðaustur af München.

Í fyrri fréttum BBC um málið segir að rannsakendur hafi meðal annars beint sjónum sínum að manni sem stýrir lestarumferð á svæðinu og hvort hann hafi slökkt á sjálfvirku öryggiskerfi skömmu fyrir áreksturinn.

Rannsóknin hefur meðal annars snúið að því að finna ástæður þess að önnur lestin, sem yfirgaf Holzkirchen á leið til Rosenheim, hafi verið á einföldu spori klukkan 6:48 að morgni, fjórum mínútum eftir að hún átti að vera á næstu lestarstöð, Kolbermoor, þar sem hún átti að mæta lestinni á leið til vesturs á tvöföldu spori.

Lestin sem var á leið frá Rosenheim, vestur til Holzkirchen fór frá Kolbermoor klukkan 6:45 og átti að vera á einfalda sporinu þegar áreksturinn varð.

Allir ellefu sem létust voru karlmenn á aldrinum 24 til 59 ára.


Tengdar fréttir

Upplýsinga beðið úr svörtu kössunum

Eitt versta lestarslys í sögu Þýskalands varð í Bæjaralandi í gær, skammt frá bænum Bad Aibling. Að minnsta kosti tíu létu lífið og sautján slösuðust alvarlega. Björgunarfólk átti erfitt með að komast að slysstaðnum. Engin skýring hafði í gær fengist á því hvers vegna báðar lestirnar voru þar á ferðinni á móti hvor annarri. Þær virtust hafa lent saman á fullri ferð, án þess að reynt hafi verið að hægja á, því fremsti vagn annarrar lestarinnar klauf hliðina af fremsta vagni hinnar lestarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×