Innlent

Lést i kjölfar bruna af safa úr risahvönn

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Bjarnarkló telst til risahvanna eins og tröllahvönn.
Bjarnarkló telst til risahvanna eins og tröllahvönn. MYND/HÖRÐUR KRISTINSSON
Þeir sem ætla að fjarlægja risahvannir þurfa að gæta þess að vera vel varðir. Þetta segir dr. Starri Heiðmarsson grasafræðingur við Akureyrarsetur Náttúrufræðistofnunar Íslands. Að sögn Starra sá samstarfsmaður hans, dr. Pawel Wasovicz grasafræðingur, frétt um 67 ára gamla konu í Póllandi sem lést af völdum brunasára fyrir viku eftir að hún reyndi að fjarlægja risahvönn.

„Þetta var reyndar tegund sem ekki hefur enn fundist hér en hún er með sama virka efni og tegundirnar tvær sem finna mér hér,“ tekur Starri fram.

Hann segir konuna hafa hlotið 3. stigs efnabruna af völdum furanocumarins sem finnst í safa risahvanna og verður virkt í sólarljósi. „Þótt konan hafi verið flutt rakleiðis á sjúkrahús eftir að hafa komist í snertingu við safa plöntunnar tókst ekki að bjarga lífi hennar. Konan var með undirliggjandi sjúkdóm og er það talið meginorsök þess að bruninn hafði þetta alvarlegar afleiðingar.“

Það er mat Starra að ekki eigi að bíða með útrýmingu risahvannar á Íslandi. „Við erum að missa tökin. Við hefðum átt að vera búin að þessu fyrir 10 árum. Því lengur sem við bíðum þeim mun erfiðara verður þetta. Við erum þegar búin að tapa fyrir nokkrum tegundum en að vísu ekki jafnhættulegum.“

Að sögn Starra getur safi úr risahvönn ert húðina þótt ekki sé sólskin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×