Erlent

Lést eftir að hafa innbyrt of mikið prótein

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Meegan Hefford lagði stund á líkamsrækt af kappi.
Meegan Hefford lagði stund á líkamsrækt af kappi. Instagram
Ung áströlsk kona lést eftir að hafa innbyrt of mikið prótein í aðdraganda vaxtarræktarkeppni þar í landi.

Konan, hin 25 ára gamla Meegan Hefford, fannst meðvitundarlaus á heimili sínu í vesturhluta landsins þann 19. júní síðastliðinn. Hún lést á sjúkrahúsi nokkrum dögum síðar.

Eftir andlát hennar kom í ljós að Hefford, sem er móðir 7 ára stúlku og 5 ára drengs, þjáðist af sjaldgæfum erfðagalla sem kemur í veg fyrir að líkaminn vinni almennilega úr því próteini sem innbyrt er.

Galli í þvagefnishring konunnar olli því að ensímið sem alla jafna brýtur niður próteinið í líkmanum virkaði ekki sem skyldi og varð til þess að ammóníak safnaðist upp í líkama hennar. Ammóníakið kann svo að leita upp í heilann þar sem það getur valdið óafturkræfum skaða, dái eða jafnvel dauða eins og í tilfelli Hefford.

Í samtali við CNN segir talsmaður samtaka sem berjast fyrir vitundarvakningu um þvagefnishringinn að flestir sem þjáist af erfðagallanum nái að vinna úr einkennum hans án þess að þurfa að hafa miklar áhyggjur. Þó kunni utanaðkomandi breytur að magna upp áhrifin, svo sem smitsjúkdómar, stress eða próteinríkt mataræði.

„Það var ómögulegt að vita að hún væri með gallann því alla jafna er ekki prófað fyrir honum,“ segir móðir Hefford. „Henni fór að líða illa og svo féll hún til jarðar.“

Hún kennir próteindrykkjum um andlát dóttur sinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×