Erlent

Lést eftir að hafa fest höfuðið í bíósæti

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Slysið varð í Vue-kvikmyndahúsi í Birmingham í upphafi mánaðarins.
Slysið varð í Vue-kvikmyndahúsi í Birmingham í upphafi mánaðarins. Google Street View
Breskur maður lést eftir að hafa klemmt höfuðið undir fótaskemli í kvikmyndahúsi í borginni Birmingham þann 9. mars síðastliðinn. Rannsóknin málsins stendur enn yfir en því er lýst sem hinu undarlegasta.

Vitni lýsa því í samtali við breska miðla hvernig maðurinn missti símann sinn undir sætið og ákvað því að beygja sig eftir honum. Maðurinn hafði sótt sýningu í kvikmyndasal svipuðum þeim sem kallaðir eru „lúxussalir“ í íslenskum kvikmyndahúsum.

Í slíkum sölum eru sætin oftar en ekki með rafmagnsdrifinn fótaskemil eins og raunin var í Vue-kvikmyndahúsinu í Birmingham. Þegar maðurinn reyndi að standa upp eftir að hafa nálgast símann sinn er hann sagður hafa fest höfuðið undir fótaskemlinum.

Sessunautar mannsins gerðu hvað þeir gátu til að losa manninn en ekkert gekk fyrr en skemillinn var að lokum brotinn. Maðurinn var fluttur á sjúkrahús þar sem hann lést viku síðar. Banamein hans er sagt vera hjartaáfall sem rakið er beint til átakanna og áfallsins sem hlaust af slysinu í kvikmyndasalnum.

Forsvarsmenn kvikmyndahússins hafa sent aðstandendum mannsins samúðarkveðjur og segja að málið verið rannsakað ofan í kjölinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×