Lífið

Lentu í jarðskjálfta í ævintýraferð í Japan

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Védís og Víkingur fóru til margra borga í Japan og segja að það hafi verið skemmtilegt að heimsækja þær allar.
Védís og Víkingur fóru til margra borga í Japan og segja að það hafi verið skemmtilegt að heimsækja þær allar.
Systkinin Víkingur og Védís eru átta og sex ára. Þau flytja til Englands eftir tvær vikur en þeim finnst gaman að kanna heiminn og fóru til Japans í sumar.

Af hverju fóruð þið til Japans? „Af því að pabbi átti afmæli.“

Hvað fannst ykkur skemmtilegast að skoða þar? „Við fórum til nokkurra borga og allar voru skemmtilegar. Í Tókýó eru mörg rosalega stór hús og turn sem heitir Tokyo Tower. Þar er hægt að horfa niður á borgina í gegnum gler í gólfinu. Það er mjög skrítið. Svo fórum við líka á vísindasafn þar sem eru vélmenni sem dansa. Í Kýótó skoðuðum við Gullna hofið, sáum geishur og gáfum öpum að borða. Í Nara sáum við risastóra búddastyttu inni í stóru hofi. Þar er líka gat á staur sem sagt er að sé jafn stórt og nefið á Búdda. Ef maður skríður þar í gegn öðlast maður eilífa heppni og blessun Búdda. Við gerðum það og erum miklu heppnari eftir að við komumst út!“

Krakkarnir hittu geishur í Japan, gáfu öpum að borða og fengu blessun Búdda.
Lentuð þið í einhverju ævintýri sem þið viljið segja frá? „Já, ferðalagið var eiginlega allt eitt stórt ævintýri. Svo var eitt sem var meira óþægilegt en ævintýralegt þegar við lentum í jarðskjálfta í Tókýó. Við vorum á hótelherbergi hátt uppi á hótelinu, á 25. hæð. Húsið hristist mikið og lengi og svo heyrðum við braka í húsinu lengi eftir að jarðskjálftinn var búinn.“ 

Hvernig matur er í Japan? „Þar er borðaður alls konar matur, til dæmis sushi, misu-súpa og núðlur. Japanskur ís sem er eins og sorbet er samt alveg rosalega vondur, hann er með skrítnu sykurbragði og algjört ógeð. 

Eftir tvær vikur flytja þau systkinin ásamt Maríu og Vífli, foreldrum sínum, til Brighton í Bretlandi. Af hverju ætlið þið að flytja þangað? „Af því að mamma er að fara í doktorsnám þar. Og við ætlum líka að fara í skóla þar til að læra ensku alveg og líka frönsku.“ 

Eitthvað að lokum? „Sayonara (sem þýðir bless á japönsku).“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×