Erlent

Lentu geimflaug á skipi í annað sinn

Samúel Karl Ólason skrifar
Starfsmenn SpaceX þótti ólíklegt að lendingin myndi heppnast.
Starfsmenn SpaceX þótti ólíklegt að lendingin myndi heppnast. Mynd/SpaceX
Fyrirtækinu SpaceX tókst í nótt að lenda geimflaug á skipi í annað sinn. Falcon 9 eldflaug var skotið á loft með gervihnött frá Flórída og heppnaðist skotið fullkomlega. Gervihnötturinn komst á braut um jörðu og eldflaugin lenti ósködduð.

Eins og áður segir er þetta í annað sinn sem starfsmönnum Elon Musk tekst að lenda geimflaug á skipi, en áður hafði tekist að lenda flaug á jörðu. Þeim hefur mistekist fjórum sinnum við að lenda flaug á skipi.

Mynd tekin af jörðu niðri og yfir tíma.Mynd/SpaceX
Markmið SpaceX er að draga verulega úr kostnaði við geimskot með því að endurnýta eldflaugar.

Samkvæmt frétt Reuters höfðu starfsmenn SpaceX dregið í efa að lendingin myndi heppnast að þessu sinni. Þessi eldflaug var á um tvöfallt meiri hraða en flaugin sem lenti í síðasta mánuði og því var talið ólíklegt að lendingin myndi heppnast.

Þetta var fjórða geimskot fyrirtækisins á árinu af rúmlega tólf skotum. Fyrirtækið gerði í síðustu viku samning um að skjóta á loft gervihnetti fyrir hernaðaryfirvöld Bandaríkjanna í fyrsta sinn.

Elon Musk, eigandi Space X, tísti í nótt um að hann þyrfti líklega að stækka flugskýlið þar sem eldflaugarnar eru geymdar, því svo margar séu að koma úr geimnum í heilu lagi.

Hér má sjá beina útsendingu SpaceX frá því í nótt. Geimflauginni er skotið á loft eftir tæpar 30 mínútur. Rúmum átta mínútum seinna lendir hún á skipinu.

Tengdar fréttir

SpaceX ætlar til Mars árið 2018

Einkarekna geimferðafyrirtækið hefur sett sér það metnaðarfulla markmið að koma geimfari til Mars árið 2018.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×