Enski boltinn

Lennon: Eiður hefur hæfileikana en formið er spurningamerki

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen í leik með AEK í Grikklandi.
Eiður Smári Guðjohnsen í leik með AEK í Grikklandi. vísir/getty
Neil Lennon, knattspyrnustjóri Bolton, á enn eftir að taka ákvörðun um hvort hann bjóði Eiði Smára Guðjohnsen samning, en hann hefur æft með enska B-deildarliðinu undanfarna viku.

Eiður Smári spilaði 75 mínútur í æfingaleik fyrir luktum dyrum á þriðjudaginn gegn Bury og á að spila annan leik í næstu viku.

Lennon hefur ekkert nema góða hluti um Eið að segja og býst nú allt eins við samkeppni um undirskrift hans, fyrst ljóst er orðið að hann vill halda áfram að spila.

„Það kæmi mér ekkert á óvart. Mér finnst bara tilkomumikið að hann vilji halda áfram að spila. Hann tók sér smá frí og kom til baka mjög ferskur,“ segir Lennon í viðtali við The Bolton News.

Eiður Smári lék síðast með Bolton árið 2000.vísir/getty
„Eina sem við eigum eftir að gera er að sjá hvar hann stendur. En hvernig metur maður Eið Guðjohnsen? Þið vitið hvað ég meina. Við munum skoða hann vel.“

Lennon segir að hann ætli sér að reyna að koma Eið Smára í leikform áður en hann tekur ákvörðun um hvort hann bjóði honum samning eða ekki. Samningaviðræður milli leikmannsins og stjórnarformannsins Phil Gartside í síðustu viku gengu vel, að sögn staðarmiðla.

„Við þurfum að koma honum í stand til að spila 90 mínútur. Ég var að sjá hann í öðruvísi umhverfi - ellefu á móti ellefu. Þangað til það gerist sér maður ekkert hvernig hann passar inn í liðið,“ segir Lennon.

„Eiður Smári hefur gert allt sem við höfum beðið hann um að gera. Nú þurfum við bara að sjá hann spila fótbolta. Hann er svo sannarlega með hæfileikana, það er ekki málið. Þetta snýst bara um hvernig líkamlegu formi hann er í. Við höfum ekki tekið ákvörðun um það ennþá.“

Varalið Bolton mætir Middlesbrough á mánudaginn og þar mun Eiður Smári spila.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×