Innlent

Lengri skipunartími myndi auka sjálfstæði

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Stefán Jóhann Stefánsson hélt erindi um sjálfstæði Seðlabankans í vikunni.
Stefán Jóhann Stefánsson hélt erindi um sjálfstæði Seðlabankans í vikunni. fréttablaðið/GVA
Til að auka sjálfstæði Seðlabanka Íslands mætti lengja skipunartímann, til dæmis í átta ár án endurskipunarmöguleika. Þetta sagði Stefán Jóhann Stefánsson, ritstjóri Seðlabanka Íslands, í erindi sem hann hélt á málstofu Seðlabankans á þriðjudag.

Erindi Stefáns Jóhanns byggir á meistararitgerð sem hann skrifaði í námi í opinberri stjórnsýslu. Í erindinu rekur hann helstu mælikvarða sem fræðimenn hafa sett fram um sjálfstæði seðlabanka. Þar kemur fram að talið sé æskilegt að skipunartíminn sé lengri en nú er, jafnvel 8 ár eða meira.

Skipunartíminn hafi aftur á móti verið lækkaður úr 7 árum í 5 ár með lagabreytingu í febrúar 2009. „Möguleiki á endurskipun eykur ekki sjálfstæðið, síður en svo, samanber nýlega atburði,“ sagði Stefán Jóhann.

Annað lykilatriði sé hver skipi seðlabankastjóra. Eftir því sem fleiri komi að skipunarferlinu, þeim mun meira teljist sjálfstæðið. „Hér á landi er það nú einn ráðherra sem skipar seðlabankastjóra eftir að þriggja manna valnefnd hefur metið hæfi umsækjenda. Einkunn Seðlabankans gæti því verið hærri. Kannski væri ráð að auka aðkomu þingsins, til dæmis þannig að efnahags- og viðskiptanefnd, eða önnur nefnd á vegum þingsins, staðfesti val á bankastjóra, til að hækka einkunn okkar hér,“ sagði Stefán.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×