Erlent

Lenda á Mars í dag og leit að lífi heldur áfram

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Vísindamenn evrópsku geimvísindastofnunarinnar ESA hafa nóg að gera í dag.
Vísindamenn evrópsku geimvísindastofnunarinnar ESA hafa nóg að gera í dag. vísir/epa
Um þrjúleytið í dag að íslenskum tíma er áætlað að geimfar frá evrópsku geimvísindastofnuninni ESA lendi á reikistjörnunni Mars.

Þetta verður í fjórtánda sinn sem reynt er að koma geimfari til lendingar á mars, en í áttunda sinn sem það tekst.

Geimfarið Schiaparelli var leyst frá móðurferju sinni á sunnudaginn, en móðurferjan TGO fer í dag á sporbraut um Mars og gerist það um svipað leyti og Schiaparelli lendir, eða laust fyrir klukkan þrjú að íslenskum tíma.

Tilgangurinn er að leita að ummerkjum um líf á rauðu plánetunni, sem svo er nefnd. Þetta er fyrsti leiðangurinn til Mars sem sérstaklega er ætlað leita þar að lífsmarki.

Þetta er fyrri hluti leiðangursins, sem nefndur hefur verið ExoMars, en árið 2018 er áætlað að önnur geimflaug frá ESA lendi á Mars með búnað til að gera enn frekari rannsóknir.

Þessi fyrri leiðangur á jafnframt að undirbúa seinni leiðangurinn með því að prófa lendingarbúnað og finna hentugan lendingarstað.

Vísindamenn segja ýmislegt benda til þess að líf geti hafa þrifist á Mars í einhverju formi. Það geti jafnvel enn verið að finna þar.

ESA hefur einu sinni áður reynt að koma geimfari til Mars. Það var Beagle 2 sem Bretar smíðuðu og komst reyndar til Mars árið 2003, en missti strax allt samband við jörð þannig að lítið sem ekkert gagn varð af umstanginu öllu. Rússar hafa tekið þátt í þessu verkefni með samstarfi við ESA.

Bandaríkjamönnum hefur hins vegar nokkrum sinnum tekist að senda geimfar til Mars, þar á meðal árið 2008 þegar Phobos-lendingarfarið sendi athyglisverðar myndir til jarðar. Á þeim mátti meðal annars greina snjókomu. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir

Lenda geimfari á Mars á morgun

Um mjög mikilvægt skref fyrir ESA er að ræða og er það liður í öðrum geimferðum til Mars í framtíðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×