Innlent

Leki hrjáir sóknarbörn

Bryndís Silja Pálmadóttir skrifar
Halldór Konráðsson kirkjuvörður virðir fyrir sér skemmdir á altari Breiðholtskirkju sem orðið hafa eftir leka úr þaki byggingarinnar.
Halldór Konráðsson kirkjuvörður virðir fyrir sér skemmdir á altari Breiðholtskirkju sem orðið hafa eftir leka úr þaki byggingarinnar. vísir/stefán
„Ég man eftir jarðarför sem var ekkert hugguleg, þar sem maður þurfti að raða fötum í kringum kistuna til að taka við leka. Það er kominn tími á gluggana og í þakhettunni efst uppi er allt orðið fúið eins og grautur. Þetta helst bara uppi af gömlum vana.“ Svona lýsir séra Gísli Jónasson, prófastur og fyrrverandi prestur í Breiðholtskirkju, ástandinu á kirkjunni. Miklar skemmdir hafa orðið á byggingunni vegna skorts á viðhaldi.

Byggingin var vígð árið 1988 og komu að sögn Gísla fljótlega í ljós annmarkar við verkið. „Þetta er flókin bygging og er í prinsippinu timburverk þar sem það eru í hæðinni miklir límtrésbitar, tólf bitar sem bera kirkjuna uppi. Þetta er skemmtilega hugsað en það kom fljótlega í ljós að bitarnir láku og það þurfti að fara í dýrar aðgerðir og klæða bitana með stáli,“ segir Gísli. Ástandið var fyrir fjórum til fimm árum svo slæmt að starfsfólk kirkjunnar þurfti reglulega að setja fötur á gólfið til þess að taka við leka af þakinu. „Ástandið er löngu komið á síðasta séns, það er ekki gaman að þurfa næstum að bjóða fólki regnhlíf eða þurfa að fjarlægja stóla úr miðri stólaröð svo menn sitji ekki undir leka,“ segir Gísli.

Séra Magnús Björn Björnsson tók við stöðu sóknarprests í byrjun janúar en hafði áður starfað í Digraneskirkju. Magnús segir töluverðan mun á þessum tveimur kirkjum en sóknarbörn eru langtum færri í Breiðholtskirkju. Að sögn Magnúsar standa sóknargjöldin því varla undir rekstri kirkjunnar, hvað þá kostnaðarsömum viðgerðum. Ef ekkert er að gert, blasir gjaldþrot við.

Nýlega fékk söfnuðurinn þó styrk úr Kirkjumálasjóði til þess að meta skemmdirnar, en enn er óvíst hvað viðgerðirnar munu kosta. „Það hefur verið klastrað hér í hálfgerðri sjálfboðavinnu. Það er til dæmis einn maður í kórnum sem hefur haft það fyrir áhugamál að klifra upp á þakið og kítta í rifur, en það eru auðvitað ekki viðgerðir,“ segir Gísli. Einnig er verið að skoða sameiningu á Breiðholtskirkju og Fella- og Hólakirkju en að sögn Gísla og Magnúsar stendur ekki til að selja bygginguna eða hætta þar kirkjustarfi endanlega. „Áður en gengið væri til sameiningar þurfum við að vita hvað er fram undan, ef sameinað yrði, yrði ekki önnur kirkjan seld. Það yrði að reka bæði húsin áfram,“ segir Gísli en söfnuðurinn í Breiðholtskirkju er sá minnsti á höfuðborgarsvæðinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×