Innlent

Leki á skurðstofu kvennadeildar

Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar
Skurðstofu á kvennadeild Landspítalans var ekki lokað þrátt fyrir leka. Þess var ekki talin þörf.
Skurðstofu á kvennadeild Landspítalans var ekki lokað þrátt fyrir leka. Þess var ekki talin þörf. Visir/Stefán
Leki á skurðstofu kvennadeildar Landspítala Háskólasjúkrahúss varð ekki til þess að henni væri lokað. Lekinn kom upp út frá ónýtri þakrennu fyrir um það bil hálfum mánuði. Lekinn var lagfærður um leið og hans varð vart og samkvæmt upplýsingum frá Landspítala var ekki þörf á að loka skurðstofunni. Engum aðgerðum var aflýst en einhverjum var frestað.

Miklar framkvæmdir hafa verið við kvennadeildina. Inngangurinn á deildina hefur verið lokaður síðan 25. janúar vegna jarðvegsframkvæmda til undirbúnings byggingu sjúkrahótels og á meðan hefur verið farið um aðalinngang Barnaspítala Hringsins. Nú er búið að opna innganginn aftur og er notast við yfirbyggða göngubrú utan á húsinu sem verður notuð fram í júní.

Framkvæmdirnar hafa valdið miklum truflunum fyrir fæðandi konur og sjúklinga kvennadeildar bæði vegna aðgengis að húsinu og mikils hávaða vegna framkvæmda.

Sjúkrahótelið er hluti af fyrsta áfanga uppbyggingar Nýs Landspítala (NLSH) við Hringbraut. Það rís á norðurhluta lóðar spítalans milli kvennadeildar, K-byggingar og Barónsstígs og verður tekið í notkun árið 2017. Í sjúkrahótelinu verða 75 herbergi.

„Við höfum beðist afsökunar og beðið um skilning, við höfum alveg fengið hann. Það er óhjákvæmilegt að það verði einhverjar truflanir vegna þessara viðamiklu framkvæmda,“ segir Guðný Helga Herbertsdóttir, upplýsingafulltrúi spítalans. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×