Lífið

Leikur með ljós og myrkur á Penumbra

Freyr Bjarnason skrifar
Íris semur sjálf öll lög og texta á nýju plötunni. Mynd/Nanna Dís
Íris semur sjálf öll lög og texta á nýju plötunni. Mynd/Nanna Dís mynd/nanna dís
Tónlistarkonan Íris Hrund Þórarinsdóttir, eða ÍRiS, gefur eftir nokkrar vikur út sína fyrstu plötu, Penumbra, og hefur hafið söfnun fyrir henni á síðunni karolinafund.com.

„Ég hef verið í músík alla ævi en ég byrjaði ekki að syngja fyrr en eftir tvítugt,“ segir Íris, sem samdi öll lögin og textana sjálf.

Fyrsta lagið af plötunni, Daybreak, hefur verið í spilun undanfarið á Rás 2 og X-inu. „Ég sem mjög mikið út frá röddum og leik mér gjarnan með andstæður í lagasmíðum og útsetningum. Í tónsmíðunum tvinnaði ég saman hefðbundin hljóðfæri á borð við selló, píanó og antíkhljóðfæri á móti ýmsum rafhljóðgjöfum. Ásamt hljóðfæraleik reyndi ég að nýta hljóðfærin til að skapa önnur hljóð en þeim var í raun ætlað, ásamt því að kanna hina ýmsu hljóðgjafa úr daglegu lífi,“ segir Íris.

„Það var upp frá þessu sem nafn plötunnar kom til, en Penumbra táknar það svæði þar sem algjört myrkur og algjört ljós mætast – eða í þessu tilviki, þar sem andstæður í tónlist tengjast. Ég reyni að skapa ákveðinn heim í kringum lögin og þótt lögin séu mjög persónuleg finnst mér gaman ef hlustandinn getur lagt sína eigin túlkun í þau.“ Tónlistinni lýsir hún sem „alternative“-poppi.

Íris er að leggja lokahönd á plötuna, sem hún fjármagnar algjörlega sjálf, og leitar eftir styrkjum á íslensku söfnunarsíðunni Karolinafund.com, þar sem fólk getur einnig forpantað hana. „Platan er tilbúin en það eina sem er eftir er að klára umslagið og prenta plötuna. Það vantar bara síðasta skrefið.“

Hún hefur nýlokið upptökum á nýju myndbandi sem leikstjórinn Peter Szewczyk tók upp eftir að hafa heyrt fyrsta smáskífulagið af plötunni, Daybreak. Myndbandið er þó við nýtt lag sem kemur út á næstu vikum.

„Það er mjög fáheyrt að erlendur leikstjóri hafi samband og hvað þá bjóðist til að koma sjálfur til Íslands, svo ég gat ekki annað en tekið boðinu. Hann tengdi greinilega við þetta lag,“ segir hún en Szewczyk hefur unnið við tæknibrellur og fleira í kvikmyndum á borð við Harry Potter, Avatar, Shrek og Ice Age. Hann hefur þó verið að færa sig meira til kvikmyndagerðar og hefur leikstýrt og framleitt stuttmyndir og tónlistarmyndbönd, m.a. fyrir hljómsveitirnar Skunk Anansie og Maccabees.

„Þetta myndband er nokkuð stórt í sniðum. Ég fékk tvo leikara til liðs við mig, búningahönnuð og danshöfund og ég hlakka mikið til að sjá útkomuna,“ segir hún en upptökurnar stóðu yfir í þrjá daga á Reykjanesi.

Íris stundaði meðal annars nám í FÍH en starfar nú sem menningar- og vísindafulltrúi hjá franska sendiráðinu. Hún hefur eytt öllum frítíma sínum í gerð plötunnar og aðspurð segist hún ætla sér stóra hluti í tónlistinni. „Maður verður að fara alla leið og láta vaða. Maður getur ekki gert þetta með hálfum hug.“

Nýtt lag, That Morning, sem Íris gaf út í gær í kjölfar söfnunarinnar má finna á Soundcloud.com/irismusiciris ásamt laginu Daybreak. Frekari fréttir má finna á facebook.com/irismusiciris.

 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×