Lífið

Leiksýning sem bætir lýðheilsu

Ugla Egilsdóttir skrifar
Rebekka A. Ingimundardóttir.
Rebekka A. Ingimundardóttir. Mynd/ Gunnar V. Andrésson
„Þessi leiksýning er okkar framlag til að stuðla að bættri lýðheilsu Íslendinga,“ segir Rebekka A. Ingimundardóttir, leikstjóri sýningarinnar Sad, sem fjallar um skammdegisþunglyndi. „Það má segja að áhorfendur séu sjúklingarnir og við séum læknarnir, eða einhvers konar lýðheilsustöð listamanna.“ Rebekka tekur fram að öll meðferð á áhorfendum verði vinaleg. „Við plokkum hvorki né pikkum í áhorfendur, og þeir þurfa ekkert að standa uppi á sviði.“

Sýningin er sett á svið af sviðslistamönnum frá Íslandi, Danmörku og Færeyjum. „Við förum líka til Danmerkur og Færeyja með sýninguna,“ segir Rebekka. „Við völdum þema sem sameinar Norðurlandabúa, en skammdegisþunglyndi hefur aukist til muna í Skandinavíu á undanförnum áratugum. Fyrir þrjátíu eða fjörutíu árum var það nær óþekkt á Íslandi. Nú er það mjög algengt. Vísindamenn telja að það stafi af breyttu mataræði. Við borðuðum mikinn fisk einu sinni og fengum mikilvæg vítamín úr fiskinum, en nú eru allir farnir að borða kjúkling,“ segir Rebekka.

Skammdegisþunglyndi heitir Seasonal Affective Disorder á ensku. Það er skammstafað SAD. „Heiti sýningarinnar er hins vegar Sad, sem þýðir leiður á ensku,“ segir Rebekka.

Hún segir leikhópinn byggja á uppgötvun vísindamannsins Jens Hannibal. „Hann fann út að í augntóftunum eru frumur sem nema blátt dagsljós. Til þess að líkaminn sé í jafnvægi þarf maður að sjá þetta bláa ljós drjúgan part úr degi. Annars er hætt við skammdegisþunglyndi. En nútímamanneskjan er að berjast við það að í tölvunni er blátt ljós. Það ruglar þetta kerfi,“ segir Rebekka. „Í sýningunni verða áhorfendur leiddir í gegnum myrkraheima hugans, og út úr þeim.“

Sad er sett upp í Læknaminjasafninu sem átti að rísa á Seltjarnarnesi fyrir nokkrum árum. „Þegar kreppan skall á var hætt við safnið. Þegar við komum þarna inn voru þetta bara steypuveggir og ekkert á gólfum,“ segir Rebekka. „Kreppan hefur komið sér vel fyrir leikhúsfólk sem er svag fyrir óhefðbundnum leikrýmum. Óklárað húsnæði er kjörið fyrir leiksýningar,“ segir Rebekka. „Annað sem gerir leiksýninguna óhefðbundna, er að áhorfandinn er inni á leiksviðinu á meðan á sýningunni stendur,“ segir Rebekka. „Við ætlum samt ekkert að stríða áhorfendum,“ segir hún. „Þetta er svona þægilegt þátttökuleikhús.“

Aðeins 24 áhorfendur komast á hverja sýningu. Sýningar verða tvær á dag frá föstudeginum 7. febrúar til sunnudags 9. febrúar. Sýningin er hluti af Vetrarhátíð í Reykjavík


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×