Enski boltinn

Leikmenn Leicester ætla að horfa saman á leikinn í kvöld

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Stuðningsmenn Leicester gætu haft góða ástæðu til að fagna í kvöld.
Stuðningsmenn Leicester gætu haft góða ástæðu til að fagna í kvöld. Vísir/Getty
Það verður mögulega söguleg stund í kvöld þegar Chelsea tekur á móti Tottenham í 36. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í kvöld.

Ef Tottenham mistekst að vinna leikinn mun Leicester þar með tryggja sér enska meistaratitilinn. Leicester fékk tækifæri til þess í gær en mátti sætta sig við 1-1 jafntefli við Manchester United á útivelli.

Stjórinn Claudio Ranieri mun missa af leiknum þar sem hann verður í flugi aftur til Englands frá Ítalíu þar sem hann er nú í stuttri heimsókn hjá 96 ára móður sinni.

„Kannski fæ ég að vita úrslitin þegar ég lendi,“ sagði hinn skrautlegi Ranieri sem er vitanlega orðin mikil hetja hjá stuðningsmönnum Leicester enda hefur félagið aldrei orðið enskur meistari í 132 ára sögu sinni.

En leikmenn Leicester ætla að hittast í kvöld til að horfa á leikinn. „Við verðum að horfa á leikinn. Ég held að við getum ekki hunsað hann,“ sagði miðjumaðurinn Marc Albrighton við enska fjölmiðla.

„Ég horfði ekki í síðustu viku en þegar maður á möguleika á að vinna deildina verðum við allir að koma saman og fylgjast með.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×