Fótbolti

Leikmenn HK biðjast afsökunar á að hafa pissað á fána Breiðabliks

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Afsökunarbeiðni leikmanna var tekin til greina.
Afsökunarbeiðni leikmanna var tekin til greina. vísir/ernir
Leikmenn HK eru búnir að biðja stjórn knattspyrnudeildar afsökunar á hegðun sinni á lokahófi fótboltans um helgina en þar var pissað á fána Breiðabliks.

Vefsíðan 433.is greindi fyrst frá málinu í gær en þá kom ekki fram að um leikmenn liðsins væri að ræða. HK-ingar sendu frá sér yfirlýsingu vegna málsins en 433.is hélt svo áfram með málið í morgun og sýndi myndband af Bjarna Gunnarssyni, framherja HK, míga á Blikafánann.

Atvikið átti sér stað eins og fram hefur komið á lokahófi knattspyrnudeildar en HK-liðið tapaði 7-2 fyrir Leikni frá Fáskrúðsfirði í lokaumferðinni á heimavelli sem varð til þess að Leiknismenn héldu sér uppi.

„Leikmennirnir segjast taka sameiginlega ábyrgð á atvikinu, þeir muni draga af því lærdóm og taka afleiðingum gerða sinna,“ segir í yfirlýsingunni sem má lesa í heild sinni hér að neðan.

Yfirlýsing tvö í heild sinni frá HK:

„Stjórn knattspyrnudeildar HK hefur móttekið afsökunarbeiðni frá leikmönnum meistaraflokks félagsins vegna ósæmilegrar meðferðar á fána Breiðabliks fyrir utan Fagralund síðastliðið laugardagskvöld.

Í afsökunarbeiðni leikmanna kemur m.a. fram að leikmenn harmi atvikið og biðjist innilega afsökunar á því. Þá kemur fram að leikmennirnir telji að hegðun af þessum toga sé ekki til eftirbreytni og samræmist hvorki siðareglum né íþróttamannlegri hegðun. Leikmennirnir segjast taka sameiginlega ábyrgð á atvikinu, þeir muni draga af því lærdóm og taka afleiðingum gerða sinna.

Stjórn knattspyrnudeildar HK ítrekar hér með fyrir hönd félagsins afsökunarbeiðni til allra Blika sem birt var í gær og vonast til þess að geta átt áfram gott og uppbyggilegt samstarf við Breiðablik, svo sem verið hefur.

Atvikið sem um ræðir er litið alvarlegum augum og hefur því verið vísað til umfjöllunar aganefndar í samræmi við lög HK.

Virðingarfyllst,

Stjórn knattspyrnudeildar HK​“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×