Enski boltinn

Leikmenn fara í 14 mínútna einkaflug á meðan stuðningsmennirnir blæða | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Freddie Flintoff er brjálaður.
Freddie Flintoff er brjálaður. mynd/skjáskot
Freddie Flintoff er fyrrverandi fyrirliði enska landsliðsins í krikket og einn dáðasti íþróttamaður Englands á seinni árum. Hann hefur undanfarin ár starfað sem fjölmiðlamaður og er nú kominn með hlaðvarpsþátt á BBC ásamt fyrrverandi fótboltamanninum Robbie Savage.

Þar fara þeir félagarnir yfir allt það helsta í íþróttum en í síðasta þætti tók Flintoff tryllinginn á ensku fótboltafélögin og beindi spjótum sínum aðallega að Arsenal. Hann vill meina að gjáin milli félaganna og stuðningsmannanna sé að breikka og nefnir dæmi:

„Þegar talað er um fótbolta og íþróttir í dag er sagt að stuðningsmennirnir sem safna alla vikuna til að geta komist á leiki á laugardögum nái engri tengingu við leikmennina,“ segir Flintoff sem bendir á að lægsta miðaverðið á leiki með Arsenal sé 27 pund en það hæsta 97 pund.

„Stuðningsmenn eru kannski búnir borga miðann og taka síðan lest á leikinn eða neðanjarðarlest. Þeir eyða 50 pundum í ferðalagið en komast svo að því að leikmennirnir eru að fara að fljúga til Norwich í einkaflugvél! Það tekur fjórtán mínútur. Þeir geta tekið rútu til Norwich.“

„Svo fara þeir til Bournemouth á einkaflugvél líka. Það eru sturtur í þessum vélum og 2.500 sjónvarpsstöðvar svo þessum greyjum leiðist ekki í allar fjórtán mínúturnar sem það tekur að fljúga til Bournemouth.“

„Það eru stuðningsmennirnir sem borga á endanum þessi ferðalög. Hvernig geta leikmennirnir litið í augu stuðningsmannanna þegar verið er að eyða svona miklum pening í ferðalög,“ segir Freddie Flintoff.

Þessa eldræðu Freddie Flintoff má sjá í spilaranum hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×