Enski boltinn

Leikmaður svaraði hráku áhorfanda með því að hóta honum með hníf í miðjum leik

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Stúkan er frá heimavelli Sawbridgeworth en hnífurinn tengist efni fréttar ekki beint.
Stúkan er frá heimavelli Sawbridgeworth en hnífurinn tengist efni fréttar ekki beint. vísir
Leikmaður í utandeildinni á Englandi sætir nú rannsókn hjá lögreglunni í Hertfordskíri eftir að hann hótaði áhorfanda með hníf í miðjum leik. Leikmaðurinn fékk lífstíðarbann hjá félagi sínu, Sawbridgeworth Town, fyrir verknaðinn.

Atvikið átti sér stað undir lok leiks Sawbridgeworth og Clapton á Crofters End-vellinum í Hertforskíri á laugardaginn. Liðin spila í níundu deild enska boltans. The Guardian greinir frá.

Því er haldið fram að einn stuðningsmaður Clapton hrækti á umræddan leikmann sem brást við með því að sækja hníf og sveifla honum í áttina að áhorfandanum. Dómari leiksins, Mario Stetakovic, flautaði leikinn af um leið en komið var fram á fimmtu mínútu í uppbótartíma þegar atvikið átti sér stað.

Forsvarsmenn Sawbridgeworth Town höfðu nákvæmlega engan húmor fyrir þessu uppátæki leikmannsins og settu hann í lífstíðarbann hjá félaginu. Hann má ekki einu sinni koma nálægt vellinum.

„Félagið er að hjálpa knattspyrnusambandinu í Hertfordshire sem er að vinna með lögreglunni að rannsókn þessa máls. Í staðinn fyrir að bíða eftir niðurstöðu í málinu er félagið búið að grípa til aðgerða og reka leikmanninn,“ segir í yfirlýsingu frá framkvæmdastjóra Sawbridgeworth, Richard Hogg.

„Leikmaðurinn mun aldrei spila fyrir þetta félag aftur og hefur fengið lífstíðarbann frá vellinum. Þetta félag hýsir leiki fyrir lið allt frá átta ára aldri þannig við tökum öllu ofbeldi mjög alvarlega.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×