Íslenski boltinn

Leikmaður Ólsara í leikbann fyrir mútu-ummælin

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Pontus Nordenberg í leiknum umrædda gegn Fylki.
Pontus Nordenberg í leiknum umrædda gegn Fylki. vísir/ernir
Pontus Nordenberg, bakvörður Víkings í Ólafsvík, var í dag úrskurðaður í eins leiks bann af aganefnd KSÍ fyrir ummæli sem hann lét falla eftir tapleik Ólsara gegn Fylki í 18. umferð Pepsi-deildar karla.

Þetta kemur fram á mbl.is, en þar segir Jónas Gestur Jónasson, formaður knattspyrnudeildar Víkings í Ólafsvík, að Ólsarar eru búnir að áfrýja úrskurði aganefndar knattspyrnusambandsins.

Svíinn Pontus Nordenberg var verulega ósáttur við störf Péturs Guðmundssonar, dómara leiksins, sem gaf Fylki tvær vafasamar vítaspyrnur en sleppti tveimur augljósum sem Ólsarar áttu að fá. Leikurinn var mikilvægur fyrir bæði lið í fallbaráttunni.

„Spurðu þá hvað þeir borguðu dómaranum. Guð minn góður. Þú hlýtur að sjá þetta,“ sagði Nordenberg við Arnar Halldórsson, myndatökumann Stöðvar 2 Sports, sem var að taka upp efni frá leiknum í Pepsi Max-vélina. Í henni er leikurinn skoðaður frá öðrum hliðum en afraksturinn birtist í Pepsi-mörkunum fimm dögum síðar.

Þessum ummælum Pontusar var vísað til aganefndar sem úrskurðaði hann í eins leiksbann fyrir þau, en með þeim var hann í raun að ásaka dómarann um að hafa þegið mútur fyrir leik.

Þrír Ólsarar voru nú þegar komnir í leikbann fyrir lokaumferðina en það eru Egill Jónsson, Pape Mamadou Faye og Tomasz Luba. Þeir taka allir út bann vegna fjöldra gulra spjalda. Þeir verða nú fjórir í leikbanni gegn Stjörnunni þar sem Ólsarar geta misst sætið sitt í deildinni tapi liðið í Garðabænum og Fylkir vinnur KR í lokaumferðinni.

Pepsi Max-vélina má sjá í spilaranum hér að neðanen atvikið með Pontus Nordenberg kemur eftir fimm mínútur og fimm sekúndur. Umræðu Pepsi-markanna má svo sjá þar fyrir neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×