Lífið

Leikhús er masókískt og geggjað

Vera Einarsdóttir skrifar
"Ég kann ekkert að mála mig og er með mjög ófókuseraðan fatasmekk. Ég veit ekkert hvar mörkin á milli erfða og áhrifa liggja en ég hafði í það minnsta meiri áhuga á að lyfta þungum steinum og labba með þá í kringum blokkina mína heldur en að teikna sól."
"Ég kann ekkert að mála mig og er með mjög ófókuseraðan fatasmekk. Ég veit ekkert hvar mörkin á milli erfða og áhrifa liggja en ég hafði í það minnsta meiri áhuga á að lyfta þungum steinum og labba með þá í kringum blokkina mína heldur en að teikna sól." MYND/ERNIR
Saga Garðarsdóttir ætlaði ung að árum að verða skipstjóri. Henni fannst skemmtilegra að burðast með steina en teikna sól og datt ekki í hug að hún myndi eignast kærasta. Saga er forfallinn leikhúsunnandi. Hún hefur unun af því að sjá gott leikhús og gera gott leikhús. Það var þó ekki hennar fyrsta val að verða leikkona.

„Ég ætlaði alltaf að verða skipstjóri eins og afi minn og langafi. Svo sagði heimilislæknirinn mér að þá þyrfti ég alls kyns bólusetningar. Kannski var hann að plata mig svo ég myndi hætta að vola yfir sprautum en það eina sem breyttist var að ég hætti við að fara á sjó. Plan B var að verða leikkona.“

Saga, sem er alin upp á Seltjarnarnesi, býr nú í Vesturbænum. Hún nýtur sín best nærri miðbænum.MYND/ERNIR
Bullsjúkur krakki

Veistu hvernig sá draumur kviknaði?„Það á sér eflaust margar skýringar. Ég var mjög bullsjúkur krakki og ólst upp á heimili þar sem var mikið bullað. Ég hafði líka mjög ríka þörf fyrir að láta í mér heyra,“ segir Saga og nefnir dæmi: „Ég fékk svona öskurapahnúta á raddböndin því ég öskraði allt sem ég vildi segja. Ég skrifaði líka mjög illa því ég hafði enga þolinmæði til að vanda mig. Ég vildi koma því sem ég var að hugsa frá mér sem fyrst og það háir mér enn. Ég er með handskrift á við átta ára krakka og slæ á lyklaborð með tveimur puttum, max,“ upplýsir Saga sem fann tjáningarþörfinni síðar farveg í listinni. ,,Kannski tengist starfsvalið líka nafninu. Krakkar geta tekið allt svo bókstaflega og mér fannst mjög mikilvægt að standa undir bæði stjörnumerki og nafni,“ segir Saga sem er ljón. „Kannski hefði ég orðið skipstjóri ef ég hefði heitið Alda og verið fiskur.“

Skrifar með Hugleiki

Þessa dagana skrifar Saga handrit að leikriti í fullri lengd ásamt Hugleiki Dagssyni. „Þetta verður lengsta leikrit sem Shakespere hefur ekki skrifað, en aðallega mjög fyndið. Þetta verður algjört leikhús-leikrit sem krefst rauðra tjalda, snúningssviðs og að minnsta kosti sextán búninga.“ Að sögn Sögu vinna hún og Hugleikur vel saman. „Við þykjum bæði oft mun pólitískari en við ætlum okkur. Það er mjög gaman. Þá hugsa ég: Jess, fólk heldur að ég viti alls konar."

"Þegar ég var lítil var ekki talað við mig um að ég væri sæt heldur miklu frekar að ég væri sniðug og sterk. kannski er það ástæðan fyrir því að ég hef lagt miklu meiri áherslu á það sjálf.
Ágengt listform

Þetta verður þriðja leikrit Sögu í fullri lengd en hún skrifaði Kenn­eth Mána með Jóhanni Ævari og Birni Thors fyrir Borgarleikhúsið og „Þetta er grín án djóks“ með Dóra DNA sem var frumsýnt í Hofi á Akureyri 2015 og síðar sýnt í Eldborg. „Það er það skemmtilegasta sem ég hef gert. Ég elska leikhús. Það er svo margt sem getur klikkað og það þarf oft svo lítið til að leikhús verði vont eða óbærilegt. Þess vegna er svo gaman þegar það heppnast. Leikhús er líka svo ágengt listform. Ef þú kannt ekki að meta málverk þá er bara hægt að líta undan. Eins er hægt að loka leiðinlegri bók. Ef þú lendir á vondri leiksýningu ertu föst með leikurunum og öðrum gestum og þið verðið bara að þjást í sameiningu, allavega fram að hléi. Það er svo masókískt og geggjað.“

Saga situr líka við og skrifar sjónvarpssketsa með leikkonunni Dóru Jóhannsdóttur. „Við munum sjá um grínið á Degi rauða nefsins í ár. Það er markmið bæði okkar og UNICEF að það verði betra en nokkru sinni fyrr.“

Saga er auk þess eftirsóttur skemmtikraftur og er víða fengin til að vera með uppistand. "Mér finnst skemmtilegast þegar mér tekst að segja brandara sem er sannur. Þegar ég næ utan um eitthvert flókið mál með einni afhjúpandi setningu sem er bara fyndin af því að hún er sönn. Svo er ég reyndar vandræðalega veik fyrir heimatilbúnum aulabröndurum sem falla í misgóðan jarðveg. Best ef ég hef þá beint frá pabba.“

Saga neitar því þó ekki að hana langi til að spreyta sig á meiri dramatík. „Jú, mig er mjög mikið farið að langa til að leika alvarlega lögreglukonu sem leysir einhvern flókinn glæp á mjög ófyndinn hátt. Það er bara eðlilegt að vilja spreyta sig á fleiri sviðum. Allt hefur þó sinn tíma og enn sem komið er er ég ekki uppiskroppa með grínhugmyndir.”

Getur verið hver sem er

Saga tilheyrir Improv Ísland hópnum sem er með vinsælar spunasýningar alla miðvikudaga í Þjóðleikhúskjallaranum. Þar er að finna blöndu af leikurum og áhugafólki sem spreytir sig á ólíkum spunaformum frammi fyrir fullum sal af fólki.

Reynir það ekki á taugarnar? „Jú það getur gert það. Hver sýning er einstök. Sumar geta verið erfiðar og aðrar frábærar. Þetta er hins vegar besta æfing í heimi í núvitund og að losa sig við hégóma. Þú getur ekki lært texta eða undirbúið þig öðruvísi en að sleppa egóinu og tæma hugann. Það er líka gaman að hugsa til þess að þú býrð kannski til frábæra senu ásamt mótleikara þínum sem svo bara hverfur í hafsjó sniðugra spunasena og verður aldrei endurleikin. Það finnst mér heillandi. Það besta við spuna er þó að mínu mati að þú getur verið hver sem er. Þú þarft heldur ekki búninga eða leikmuni. Þú getur verið Bubbi Morthens, rafmagnstæknifræðingur og húsfluga allt í sömu sýningunni. Komandi úr leikhúsheiminum þar sem hlutverk kvenna geta verið takmörkuð er þetta geggjað. Þú getur búið til þitt eigið draumahlutverk á staðnum.“

Ekki góð í að vera sæt

Sögu hefur líka brugðið fyrir í auglýsingum og sat nú síðast fyrir í sumarbæklingi ferðaskrifstofu. Aðspurð segir hún verkefnið hafa verið skemmtilegt en að fyrirsætustörf reynist henni þó nokkur hausverkur.

„Ég er ekkert mjög góð í að vera sæt. Ég kann til dæmis ekkert að mála mig og er með mjög ófókuseraðan fatasmekk. Þegar ég var lítil var ekki talað við mig um að ég væri sæt heldur miklu frekar að ég væri sniðug og sterk. Ég er mjög þakklát fyrir það og kannski er það ástæðan fyrir því að ég hef lagt miklu meiri áherslu á það sjálf. En svo fæðumst við líka bara einhvern veginn og erum ólík sem börn. Ég veit ekkert hvar mörkin á milli erfða og áhrifa liggja en ég hafði í það minnsta meiri áhuga á að lyfta þungum steinum og labba með þá í kringum blokkina mína heldur en að teikna sól. Þá heillast ég mest af fólki sem er afslappað í hvaða aðstæðum sem er, hvort sem það er vel eða illa til haft,“ segir Saga sem varð á unglingsárum mjög hissa þegar einhver vildi byrja með henni. „Eflaust voru það bara venjulegir unglingakomplexar. Ég var hrædd um að ég myndi aldrei prófa að fara í sleik og falla á öllum samræmdu prófunum.“

Allt annað líf 

Saga er nýtrúlofuð tónlistarmanninum Snorra Helgasyni en þau hafa verið saman í að verða þrjú ár. „Ég mæli með þessu. Það ættu allir að trúlofa sig að minnsta kosti einu sinni. Manni líður bara rosalega vel. Mér finnst ég líka vera beinni í baki og á auðveldara með að fara fyrr að sofa.“

Saga sá Snorra fyrst í Vesturbæjarlauginni. „Við skiptumst svo á að táldraga hvort annað þangað til ég spurði hann hvort hann vildi byrja með mér. Hann hló að mér.“

Saga segir þau stefna á brúðkaup næsta sumar. „Okkur langar að giftast úti á landi svo þeir sem koma geti síður flúið aftur heim og verði að drekka með okkur kampavín í 24 tíma, eða þangað til við skiljum og giftumst aftur.“ Saga segist samt ekki ætla að pæla mikið í þessu fyrr en nær dregur. „Nú vil ég bara njóta þess að sofa út og safna plöntum, en markmið mitt í lífinu er að verða nógu rík til að geta alltaf sofið til hádegis og að þurfa aldrei að fljúga með lággjaldaflugfélagi.“

Saga ásamt hluta af Improv ísland hópnum, sem hún elskar.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×