Íslenski boltinn

Umfjöllun og viðtöl: Breiðablik - Stjarnan 0-1 | Harpa aftur hetjan

Kristinn Ásgeir Gylfason á Kópavogsvelli skrifar
Harpa Þorsteinsdóttir er búin að afgreiða Blika tvisvar sinnum á einni viku.
Harpa Þorsteinsdóttir er búin að afgreiða Blika tvisvar sinnum á einni viku. vísir/arnþór
Íslandsmeistarar Stjörnunnar unnu bikarmeistara Breiðabliks, 1-0, á Kópavogsvelli í kvöld í undanúrslitum Borgunarbikars kvenna í fótbolta.

Líkt og þegar liðin mættust í Pepsi-deildinni á þriðjudagskvöldið var Harpa Þorsteinsdóttir hetja Stjörnunnar, en hún skoraði eina mark leiksins á 44. mínútu.

Stjarnan mætir Selfossi í úrslitaleiknum á Laugardalsvelli þann 30. ágúst.

Liðin voru jöfn framan af leik en ákefðin meiri í Stjörnukonum sem skilaði sér í sigri. Vörnin hjá Stjörnunni var með svör við flest öllu sem Blikar reyndu.

Fátt var um aukaspyrnur en leikurinn einkenndist af jafnri baráttu og færum sem mörg hver urðu til vegna aðstæðna á vellinum. Bleytan fleytti boltanum og leikmenn voru á köflum klaufalegir í tímasetningum.

Markið sem skildi að var litað af aðstæðum. Blautur boltinn virtist renna í gegnum greipar Sonný Láru Þráinsdóttur í marki Breiðabliks.

0-1 sigur Stjörnunnar á Kópavogsvelli þegar upp er staðið, sanngjarn en leikurinn hefði getað endað á hvorn veginn sem var.

Breiðablik sótti af hörku undir lok leiks en allt kom fyrir ekki. Stjarnan er því komin í úrslit Borgunarbikarsins 2014 og mætir þar liði Selfoss.

Ólafur Þór: Þetta eru réttu leikirnir til að klára„Við fáum ekki á okkur mörg færi, þessi leikur hefði getað farið á hvorn veginn sem var, en mínir leikmenn höfðu kjark og þor til að klára þetta,“ sagði Ólafur Þór þjálfari Stjörnunnar.

„Við vorum að vinna vel sem lið, við erum með góðan hóp og gott lið. Við erum sátt með hópinn okkar sem margir vilja meina að sé lítill,“ sagði Ólafur sáttur við sína leikmenn eftir sigurinn þrátt fyrir að Sandra Sigurðardóttir hafi teflt á tæpasta vað á köflum. „Hún tók og sólaði sóknarmanninn þeirra ágætlega, við treystum því fólki sem er inná“.

Aðspurður hvort heppnisstimpill sé á þessu mikilvæga marki svaraði hann „þegar það er svona blautt í veðri þá er hægt að hafa heppnina með sér í svona, Harpa rétt pikkaði í hann og breytti aðeins stefnunni. Við fengum betri færi til að skora úr.“

Hlynur Svan: Telma hugsanlega dæmd rangstæð að tilefnislausu

Hlynur Svan, þjálfari Breiðabliks hafði ekkert út á dómgæsluna að setja nema hugsanlega eina rangstæðu sem var dæmd á Telmu Hjaltalín í fyrri hálfleik. „Dómgæslan var fín en mér hefur verið bent á að Telma hafi verið flögguð rangstæð án þess að tilefni væri til“.

Annars var Hlynur sáttur við leik liðsins. „Liðið spilaði hörkufínan leik, við vorum ekkert síðri en Stjarnan. Það eru leiðinda mistök sem gera það að verkum að við fáum á okkur mark sem skilur síðan að í lokin“.

Telma Hjaltalín: Ég er bara svo hröð að dómara halda oft að ég sé rangstæð

„Ég held að ég sé það hröð að fólk heldur oft að ég sé rangstæð. Ég er hins vegar svo fljót af stað að ég er bara á undan andstæðingnum,“ sagði Telma sem var að vonum hnípinn eftir leikinn. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×