Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Víkingur R. - KA 0-1 | Sjáið sigurmark KA-manna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
KA vann afar mikilvægan sigur á Víkingi R., 0-1, í 16. umferð Pepsi-deildar karla í kvöld.

Króatíski miðvörðurinn Vedran Turkalj skoraði eina mark leiksins á 12. mínútu. Þetta var hans fyrsta mark fyrir KA. Það má sjá það í spilaranum hér fyrir ofan.

Eyþór Árnason, ljósmyndari Vísis og Fréttablaðsins, var í Fossvoginum í kvöld og náði þessum myndum hér fyrir neðan.

Markið kom þvert gegn gangi leiksins en Víkingar byrjuðu leikinn mun betur.

Á 30. mínútu fékk Vladimir Tufegdzic að líta rauða spjaldið fyrir brot á Callum Williams og Víkingar því manni færri.

Þrátt fyrir liðsmuninn héldu Víkingar sínu striki og máttu vera svekktir að ná ekki að skora jöfnunarmark. Alex Freyr Hilmarsson fékk besta færi heimamanna en Srdjan Rajkovic varði frá honum.

Með sigrinum komst KA upp í 7. sæti deildarinnar. Víkingur er áfram í 6. sætinu en hefði getað komist upp í það þriðja með sigri í kvöld.

Af hverju vann KA?

KA spilaði ekki vel í leiknum í kvöld og mátti teljast heppið að fara með stigin þrjú úr Víkinni.

KA hefur oft spilað betur í sumar og uppskorið minna en í kvöld var þessu öfugt farið. Akureyringar skoruðu eftir langt innkast og vörðust nógu vel til að halda hreinu gegn 10 Víkingum.

Þessir stóðu upp úr:

Turkalj skoraði markið sem skildi liðin að og var traustur í hjarta KA-varnarinnar. Rajkovic var einnig góður í markinu og átti tvær mikilvægar vörslur í seinni hálfleiknum.

Víkingsvörnin átti fínan dag og Arnþór Ingi Kristinsson var kröftugur inni á miðjunni hjá heimamönnum.

Hvað gekk illa?

Uppspil KA-manna var ekki merkilegt í leiknum í kvöld og þeir náðu sjaldan að opna Víkingsvörnina þrátt fyrir að vera einum færri í klukkutíma.

Víkingar voru með undirtökin á meðan jafnt var í liðum en sköpuðu sér fá færi. Eftir brottvísunina varð Geoffrey Castillion mjög einmana í framlínu Fossvogsliðsins og það lagaðist ekki fyrr en Logi Ólafsson setti Nikolaj Hansen inn á þegar hálftími var til leiksloka. Eftir þá breytingu sótti Víkingar af meiri krafti og bjuggu til betri tækifæri en þeir höfðu gert fram að því.

Hvað gerist næst?

Víkingar sækja Fjölnismenn heim í næstu umferð. Strákunum hans Loga líður vel á útivöllum þar sem þeir hafa náð í fullt af stigum. Öðru máli gegnir um stigasöfnunina á heimavelli sem hefur verið afar fátækleg.

KA-menn, sem eru taplausir í síðustu fjórum leikjum, eiga Víking Ó. og ÍA í næstu tveimur umferðum og með hagstæðum úrslitum í þeim leikjum geta þeir sagt bless við botnbaráttuna.

Maður leiksins: Vedran Turkalj, KA

Einkunnir má sjá með því að smella á flipann Liðin hér fyrir ofan

Logi Ólafson á bekk Víkinga.vísir/eyþór
Logi: Áttum miklu meira skilið

Logi Ólafsson, þjálfari Víkings R., var þungur á brún eftir 0-1 tap hans manna fyrir KA í kvöld. Hann var svekktur að sjá á eftir stigunum þremur.

„Það er þyngra en tárum taki. Mér fannst við eigum mikla meira skilið út úr þessum leik og það er með hreinum ólíkindum að við skildum ekki hafa náð að jafna metin,“ sagði Logi eftir leik.

Á 30. mínútu fékk Vladimir Tufegdzic rautt spjald fyrir brot á Callum Williams. Logi var ekki par sáttur við þá ákvörðun Vilhjálms Alvars Þórarinssonar að reka Serbann af velli og taldi samræmi vanta í dómgæsluna.

„Það sama gerðist hinum megin. Mér finnst það sama eiga að gilda fyrir bæði lið,“ sagði Logi en hvernig fannst honum Vilhjálmur Alvar standa sig heilt yfir?

„Hann var kannski óheppinn í sínum ákvörðunum. Mér fannst brotið á Alex Freyr [Hilmarsson] þegar hann var í dauðafæri, jafnvel þótt hann hafi hitt boltann. Svo fá þeir að hanga í mönnum lon og don inni í vítateignum og það er ekkert dæmt.“

Víkingar hefðu farið upp í 3. sætið með sigri en létu það tækifæri sér úr greipum ganga.

„Þetta var spurning um að fara 25 stig og halda þeim [KA] í 18 stigum. Í staðinn er þetta 22 og 21 stig. Við getum svekkt okkur yfir niðurstöðunni en frammistaða okkar var góð,“ sagði Logi.

Srdjan Tufegdzic, þjálfari KA.vísir/eyþór
Túfa: Mikilvægur sigur eftir úrslitin í dag

Srdjan Tufegdzic, þjálfari KA, var sæll og glaður eftir 0-1 sigur Akureyringa á Víkingi R. í kvöld.

„Ég er mjög ánægður með sigurinn eftir þrjú jafntefli í röð,“ sagði Túfa.

KA-menn voru einum fleiri í klukkutíma en þrátt fyrir það náðu þeir sárasjaldan að opna Víkingsvörnina.

„Ég var ekki alveg sáttur með seinni hálfleikinn. Það vantaði betri ákvarðanatöku á síðasta þriðjunginum,“ sagði Túfa.

Sigurinn var gríðarlega mikilvægur fyrir KA sem er nú fimm stigum frá fallsæti.

„Þetta var rosalega mikilvægur sigur, sérstaklega eftir úrslitin fyrr í dag,“ sagði Túfa og vísaði til sigurs ÍBV á ÍA á Akranesi.

vísir/eyþór
vísir/eyþór
vísir/eyþór
vísir/eyþór
vísir/eyþór
vísir/eyþór

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira