Umfjöllun og viðtöl: Njarðvík - Stjarnan 91-81 | Ljónin bitu frá sér

Magnús Einþór Áskelsson skrifar
Bonneau tapaði á gamla heimavellinum í kvöld.
Bonneau tapaði á gamla heimavellinum í kvöld. vísir/anton
Njarðvík vann Stjörnuna 91-81 í kvöld í Ljónagryfjunni. Stjarnan byrjaði betur og leiddi eftir fyrsta leikhluta. Terrel Wilson, bandaríski leikmaður Njarðvíkur, tók yfir leikinn í öðrum leikhluta og leiddu Njarðvíkingar í hálfleik, 54-49.

Heimamenn héldu uppteknum hætti í þriðja leikhluta og alltaf þegar Stjarnan minnkaði muninn komu stórar körfur hjá Njarðvíkingum.

Sigurinn var aldrei í hættu í fjórða leikhluta og unnu Njarðvíkingar tíu stiga sigur 91-81.

Af hverju vann Njarðvík?

Njarðvík náði upp betri vörn og var á köflum frábært. Framlag úr ýmsum áttum og þrátt fyrir stórleik Terrel Wilson voru aðrir sem áttu sinn þátt í sigrinum.

Sóknarleikur Stjörnunnar var ágætur en þeir kólnuðu í þriggja stiga skotunum í seinni hálfleik meðan Njarðvík hitti úr risaskotum þegar Stjarnan var með áhlaup.

Hverjir stóðu upp úr?

Terrel Wilson var hreint út sagt magnaður í liði Njarðvíkur. Skilaði 38 stigum og 8 fráköstum og endaði með 45 framlagsstig. Njarðvíkingar heldur betur fengið sterkan Kana til sín.

Einnig verður að minnast á Snjólf Marel Stefánsson sem skoraði 7 stig og tók 6 fráköst, en vörnin sem hann skilaði var hreint út sagt mögnuð.

Hjá Stjörnunni var Tómas Þórður Hilmarsson mjög öflugur með 26 stig og 10 fráköst. Hlynur Bæringsson var einnig góður með 16 stig 9 fráköst og 7 stoðsendingar.

Hvað gekk illa?

Varnarleikur Stjörnunnar var ekki góður í þessum leik, Njarðvík skoraði 54 stig í fyrri hálfleik og höfðu Stjörnumenn enginn svör við leik Terrel Wilson þrátt fyrir að vera með Hlyn Bæringsson, Tómas Þórð og Collin Pryor til að verjast honum.  

Tölfræði sem vekur athygli

Hittni heimamanna var mjög góð í þessum leik eða 52%, Terrel Wilson var með frábæra hittni eða 77%. Liðin tóku bæði 40 fráköst.

Hvað næst?

Njarðvík fer í Breiðholtið og mætir ÍR og miðað við stemminguna á pöllunum í kvöld gæti það verið frábær skemmtun. Á sama tíma fer Stjarnan til Þorlákshafnar og etur kappi við þórsara.

Njarðvík-Stjarnan 91-81 (23-27,31-18, 54-49, 73-68, 91-81)

Njarðvík: Terrel Wilson 38/8 fráköst, Logi Gunnarsson 18/8 stoðsendingar, Oddur Rúnar Kristjánsson 9, Vilhjálmur Theodór Jónsson 9, Snjólfur Marel Stefánsson 7/6 fráköst, Maciek Stanislav Baginski 6, Ragnar Friðriksson 5.

Stjarnan: Tómas Þórður Hilmarsson 26/10 fráköst, Hlynur Bæringsson 16/9 fráköst, Róbert Sigurðsson 15, Collin Anthony Pryor 14/10 fráköst, Marvin Valdimarsson 5, Arnþór Freyr Guðmundsson 3, Stefan Bonneau 2, Dúi Þór Jónsson 0, Egill Agnar Októsson 0.

Daníel: Terrell er gulls ígildi

Daníel Guðmundsson, þjálfari Njarðvíkur, var ánægður með skipulag sinna manna í kvöld.

„Undirbúningur og skipulag gekk 90 prósent upp. Þeir skora 81 stig á okkur. Við vitum að þeir skora 80 stig plús og halda þeim í kringum 80 stigum var rosalega flott,“ sagði þjálfarinn sáttur.

„Við vorum ekkert sérstakir í byrjun og þeir náðu áhlaupi á okkur en um leið og við fórum dýpra í sóknarleikinn kom þetta hjá okkur. Erlendi leikmaður okkar var frábær, Terrell er gulls ígildi hjá okkur.“

Snjólfur Marel Stefánsson var magnaður í leiknum í kvöld og var Daníel ánægður með hans framlag.

„Hann er svo duglegur. Að sjá hann hérna í kvöld miðað við fyrstu tvo leikina var eins og svart og hvítt. Við tókum gott spjall um daginn og erum búnir að vera hérna flesta morgna í vikunni og æfa skotin og hluti sem hann getur gert betur og hann sýndi það heldur betur í dag.”

Logi: Eins og í úrslitakeppninni

Njarðvíkingurinn Logi Gunnarsson var ánægður með stuðninginn í kvöld en það var úrslitakeppnisstemning í troðfullri Ljónagryfjunni.

„Þetta var eins og vera kominn í úrslitakeppnina strax en þetta er svona í Njarðvíkinni að það er vel mætt á alla deildarleiki og það var engin undartekning á því, trommur og læti á fyrsta heimaleiknum. Ég bíð spenntur eftir framhaldinu,” sagði Logi.

Hrafn: Þeir hittu alltaf úr risaskotum

Hrafn Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar,  var heldur niðurlútur í leikslok.

„Mér fannst við kannski bjóða þeim fullmikið upp í dans  í fyrri hálfleik, fannst við missa niður tempóið og baráttuna í öðrum leikhluta og þá varð þessi munur til,“ sagði Hrafn svekktur.  

„Ég var nokkuð sáttur með baráttuna í seinni hálfleik og við vorum oft nálægt því að ná þeim og búa eitthvað til úr þessum leik. Þá hittu þeir alltaf úr risaskotum og hrós til þeirra,” sagði Hrafn.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira