Umfjöllun og viðtöl: Keflavík - Grindavík 93-88 | Keflavík vann Suðurnesjaslaginn

Magnús Einþór Áskelsson skrifar
vísir/andri marinó
Keflavík fékk Grindavík í heimsókn í TM-höllina í kvöld. Um sannkallaðann Suðurnesjaslag var um að ræða og var hart tekist á.

Grindavík byrjaði leikinn betur og gerði sig líklega til að slíta heimamenn frá sér um miðbik annars leikhluta.

Keflvíkingar bitu í skjaldarendur, jöfnuðu leikinn með góðum varnarleik og auðveldum hraðaupphlaupum. Keflvíkingar náðu svo forskotinu rétt fyrir leikhlé með fimm síðustu stigum leikhlutans og leiddu 49-45 í hálfleik.

Grindvíkingar voru ekki lengi að jafna þegar í þriðja leikhluta og var jafnræði með liðunum. Aftur náðu Keflvíkingar undirtökunum í lok fjórðungsins og leiddu 68-63.

Í byrjun fjórða leikhluta kveiknaði á Ragnari Péturssyni, skoraði hann 8 stig í röð og kom Keflvíkingum í 10 stiga forskot. Þann mun náði Grindavík aldrei að ógna að ráði og urðu lokatölu 93-88 heimamönnum í vil.

Af hverju vann Keflavík?

Keflavík vann leikinn á liðsheildinni. Þeir fengu framlag frá öllum leikmönnum og hittu vel úr þriggja stiga skotum.

Grindvíkingar virkuðu værukærir og varnaleikur liðsins gekk engan veginn upp. Dagur Kár í leikbanni en Grindavík er með slíkan hóp að það á ekki að slá þá út af laginu. Heimamenn miklu grimmari í þessum leik í kvöld.

Hverjir stóðu upp úr?

Fyrir Keflvíkinga skilaði Cameron Forte flottum leik með 20 stigum og 15 fráköstum. Ragnar Bragason átti skínandi fjórða leikhluta og endaði leikinn með 13 stig. Daði Lár saknaði ekki bróður síns og skoraði einnig 13 stig.

Fyrir Grindvíkinga var Rashad Whack öflugur og skoraði 31 stig. Sigurður Þorsteinsson var einnig sterkur með 16 stig og 10 fráköst.

Hvað gekk illa?

Varnarleikur gestanna var slakur, leyfðu Keflvíkingum að fá góð skot hvað eftir annað. Sóknarleikurinn var líka á köflum slakur misstu boltann í hendurnar á Keflvíkingum sem náðu hraðaupphlaupum í kjölfarið.

Tölfræði sem vekur athygli

Þriggja stiga hittni liðana er ólík, 46% hjá heimamönnum sem fengu skotinn oft galopin á móti 27% gestanna.

Bekkurinn hjá Keflavík skilaði 40 stigum á móti 28 stigum Grindavíkur.

Hvað næst?

Risaleikir hjá báðum liðum í næstu umferð. Keflavík fer í Hafnarfjörðinn og tekur á móti Haukum. Grindavík fær Tindastól í heimsókn.

Keflavík-Grindavík  93-88 (22-24,49-45,68-63,93-88)

Keflavík: Cameron Forte 20/10 fráköst,Ragnar Örn Bragason 14, Daði Lár Jónsson 10, Reggie Dupree 9, Guðmundur Jónsson 9, Þröstur Leó Jóhannsson 9, Magnús Már Traustason 8, Hilmar Pétursson 8, Ágúst Orrason 6,

Grindavík: Rashad Whack 31, Sigurður Þorsteinsson 16/10 fráköst, Ingvi Þór Guðmundsson 13, Þorsteinn Finnbogason 9, Ólafur Ólafsson 9, Jóhann Árni Ólafsson 6, Kristófer Breki Gylfason 3, Ómar Örn Sævarsson 2, Hinrik Guðbjartsson 0.

Friðrik Ingi: Eins gott að vera á tánum

Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Keflavíkur, var ánægður í leikslok með svar sinna manna við tapinu gegn Þór Akureyri.

„Það er alltaf skemmtilegra að vinna.  Við erum ánægðari í dag, mjög góður sigur gegn góðu liði. Við verðum alltaf að vera tilbúnir í öllum leikjum alltaf. Það eru mög lið sem gera tilkall í það að berjast um sína stöðu í þessari deild og komast í úrslitakeppni þannig að það er eins gott að menn séu bara á tánum og leggi sig fram,” sagði Friðrik Ingi.

Um framlag strákanna af bekknum sem skiluðu 40 punktum hafði Friðrik þetta að segja.

„Þetta er í fyrsta sinn í allt haust að við séum með fleiri enn einn í hverja stöðu mér fannst við vera með ferskari fætur á ákveðnum tímapunkti sem varð til þess að við náðum að  komast í forystu.”

Jóhann: Allt of margir að svindla

Jóhann Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, var ekki sáttur með varnarleik sinna manna og fannst sínir menn hreinlega svindla í varnarvinnunni.  

„Við vorum flatir nánast í 40 mínútur og komumst aldrei í takt við þetta, vantaði helling upp á hjá mínum mönnum,“ sagði Jóhann.

„Skipulagið komst í raun aldrei á sérstaklega varnarlega, við vorum alltaf út úr öllu sem við áttum að vera gera. Við erum alltaf að reyna að gera okkur markmið og gildi sem við erum að reyna að fylgja en það eru alltof margir sem eru að svindla og stytta sér leiðir, þetta voru bara vonbrigði.”

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira