Umfjöllun, viðtöl og myndir: FH - Haukar 30-29 | Hvít jól í Hafnarfirði

Einar Sigurvinsson skrifar
vísir/anton
FH sigraði nágranna sínu í Haukum með einu marki, 30-29, í Kaplakrika í kvöld. Sigurmark FH-inga kom á síðustu sekúndu leiksins.

Fyrsta korterið bar lítið á milli liðanna og skiptust þau á að leiða með einu marki. Þegar tók að líða á fyrri hálfleikinn náðu FH-ingar ívið betri tökum á leiknum og komust þeir tveimur mörkum yfir á 16. mínútu. Forskotið í fyrri hálfleiknum varð þó aldrei meira en tvö mörk og náðu Haukar að jafna leikinn á 22. mínútu, 9-9. Á síðustu sekúkundu fyrri hálfleiks náði Daníel Þór Ingason að jafna fyrir Hauka, 14-14 og þannig skildu liðin að í hálfleik.

Haukamenn áttu síðan sinn besta kafla í upphafi síðari hálfleiks. Þeir skoruðu fimm mörk í röð og staðan orðin 15-20 eftir að einungis átta mínútur höfðu verið spilaðar af síðari hálfleiknum. Á 40. mínútu skoraði Björgvin Páll Gústavsson í tómt mark FH-inga og náði sex marka forystu Haukamanna, 16-22.

Þá ákváðu FH-ingar að setja í fluggírinn og skoruðu næstu sex mörk leiksins og jafna, 22-22. Forysta Haukamanna varð að engu á aðeins fjórum mínútum. Síðustu mínútur leiksins voru hnífjafnar en að lokum var það Óðinn Þór sem kláraði leikinn fyrir FH á síðustu sekúndu leiksins. Lokatölur 30-29 í nágrannaslag eins og þeir gerast bestir.

Af hverju vann FH leikinn?

Markvarsla í fyrri hálfleik, vörn í seinni hálfleik, sókn allan leikinn. Raunar væri hægt að sækja það nákvæmlega sama um leik Hauka, en þetta var virkilega góður leikur hjá báðum liðum í kvöld. Á heildina litið er þó hægt að segja að FH-ingar hafi verið ívið betri. Þeir höfðu herslumuninn sem þurfti og sýndu gríðarlegan karakter þegar þeir komu til baka eftir að hafa verið sex mörkum undir.

Hverjir stóðu upp úr?

Ásbjörn Friðriksson var markahæsti maður leiksins með 11 mörk og næst á eftir honum kom Hákon Daði Styrmisson með 10.Í fyrri hálfleik voru markverðirnir tveir bestu menn vallarins og sýndu þeir Ágúst Elí og Björgvin Páll að þeir eiga landsliðsætin sín fyllilega skilin og enduðu þeir báðir með yfir 35 prósent markvörslu.

Hvað gekk illa?

Heilt yfir voru bæði lið að spila gríðarlega vel fyrir utan nokkurra mínútna kafla þar sem ekkert gekk upp. Á aðeins fjórum mínútum misstu Haukamenn niður sex marka forskot og naga þeir sig sjálfsagt í handbökin yfir því eitthvað fram eftir kvöldi.

Hvaðgerist næst?

Nú tekur við jólafrí hjá liðinum og er næsti leikur þeirra í Olís-deildinni ekki fyrr en 31. janúar. Þá mæta FH-ingar í útileik gegn Gróttu og Haukar taka á móti Stjörnunni í Hafnafirðinum.

Ljósmyndari Vísis, Anton Brink, var í Kaplakrika í gær og tók meðfylgjandi myndir. 

vísir/anton
Halldór: Við erum með frábært lið

„Dramatískt, gott sjónvarp, frábær handbolti,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon þjálfari FH , en hann var að vonum sáttur eftir sigur sinna manna á Haukum kvöld.

FH-ingar sýndu gríðarlegan karakter eftir að hafa lent sex mörkum undir á 38. mínútu. Þeir skoruðu næstu sex mörk og jöfnuðu leikinn á aðeins fjórum mínútum.

„Ég var ekki alveg rólegur þegar staðan var 22-16, en strákarnir sýndu hrikalegt hjarta, vinnusemi og fagmennsku. Húsið kom með okkur, maður sá glampann í augunum á stráknum sem maður þekkir og við unnum okkur hægt og bítandi inn í leikinn.“

Halldór á eftir að skoða betur hvað olli því að þeir misstu leikinn frá sér í upphafi síðari hálfleiksins en telur þó að hausinn mönnum hafi haft þar stór áhrif.

„Við vorum klaufar varnarlega. Við vorum að fá á okkur mikið af brottvísunum, það var mikið líf í okkur og mikill kraftur þegar leið á seinni hálfleikinn. Menn vildu vera „all-in“ og fóru kannski aðeins framúr sér og lentu í því að fá tvær mínútur sem voru fyllilega réttar. Maður þarf bara að kíkja á þetta í rólegheitum.“

„Ég er fyrst og fremst er ég bara hrikalega ánægður með mína stráka, mitt lið og alla í kringum þetta að ná þessum sigri í dag. Við erum með frábært lið. Það er ekkert auðvelt að lenda í svona umhverfi eins og í seinni hálfleik og að koma svona sterkir til baka,“ sagði Halldór, en hann og hans menn geta farið sáttir inn í jólafríið.

vísir/anton
Gunnar: Misstum einbeitingu í smá stund

„Gerist ekki verra en þetta og meira svekkjandi, að tapa hérna á síðustu sekúndunni með frákasti, þetta verður ekki mikið verra,“ sagði Gunnar Magnússon þjálfari Hauka í leikslok.

„Mér fannst leikurinn vel spilaður hjá stráknum, síðari hálfleikur sérstaklega. Mér fannst við gera þetta virkilega vel. Frammistaðan var góð og það er synd að hún hafi ekki skilað okkur allavega stigi. Í heildina var þetta flott spilamennska.“

Haukar náðu sex marka forystu í upphafi síðari hálfleiks. Gunnar var ekki sáttur með dómgæsluna á þeim kafla leiksins.

„Þetta fer mjög fljótt. Þetta eru stuttar sóknir, ruðningurinn á Atla var aldrei ruðningur og ekki heldur ruðningurinn á Leó. En það er sama, þetta fer á fjórum til fimm mínútum þessi sex mörk, við eigum líka sök á því sjálfir. Við hleyptum þeim inn í leikinn og misstum kannski einbeitingu og hausinn í smá stund. Það hefur verið okkar akkilesarhæll, um leið og við komust í smá forskot slökum við aðeins á aganum, þá erum við sjálfum okkur verstir“.

Á heildina litið var Gunnar þó ánægður með leik sinna manna í kvöld.

„Ég verð samt bara að hrósa Haukunum fyrir góða spilamennsku í kvöld. FH-liðið er sterkt og spiluðu leikinn vel en það er svekkjandi að þetta hafi ekki fallið okkar megin í lokin,“ sagði Gunnar að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira