Innlent

Leigutakar veiðiréttar í Staðará vita ekki hverjum á að borga

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Deilur hafa verið um flest milli himins og jarðar á Staðastað.
Deilur hafa verið um flest milli himins og jarðar á Staðastað. vísir/egill
Óvissa er um um veiðiréttindi prestssetursjarðarinnar Staðastaðar á Snæfellsnesi. Í skýrslu sem framkvæmdastjóri kirkjuráðs flutti á fundi ráðsins kom fram að deilu um landamerki við eiganda jarðarinnar Traðar var vísað frá héraðsdómi vegna vanreifunar. Deilan heldur þó áfram um veiðiréttinn í Staðará.

„Þá kom fram að leigutakar veiðiréttar eru í óvissu um hverjum skal greiða fyrir leiguréttinn vegna deilunnar. Einnig kom fram að aðrir leigutakar sóknarprests eru í sams konar óvissu vegna þess að fram er komið álit kirkjuráðs þess efnis að eðlilegt sé að sóknarprestur skili jörðinni til Kirkjumálasjóðs eigi síðar en á fardögum 2017,“ segir í fundargerð Kirkjuráðs.

Eins og fram hefur komið í Fréttablaðinu telur kirkjuráð að sóknarpresturinn á Staðastað eigi að skila jörðinni eftir að biskup létti af honum skyldu til að búa í prestsbústaðnum. Prestsfjölskyldan hafði áður flutt úr húsinu og sest að í Borgarnesi með þeirri skýringu að veikindi fjölskyldumeðlima mætti rekja til myglu í húsinu. Þrátt fyrir kostnaðarsamar viðgerðir töldu prestshjónin ósannað að tekist hefði að ráða niðurlögum myglunnar. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×