Innlent

Leigusamningum við námsmenn rift vegna áframleigu

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Námsmenn eru farnir að gera sér mat úr auknum straumi ferðamanna en leigusamningum við stúdenta hefur í nokkrum tilvikum verið rift undanfarið vegna áframleigu til ferðamanna á stúdentagörðum. Framkvæmdastjóri Félagsstofnunar stúdenta segir margt benda til að málunum sem þessum muni fjölga.

Ríkisskattstjóri hefur undanfarið hert eftirlit með þeim sem leiga út íbúðir sínar í gegnum vefsíður líkt og Airbnb. Meðal annars hafa skattframtöl þeirra sem hafa leigt út íbúðir sínar verið skoðuð og kannað hvort þeir hafi borgað skatt af þeim tekjum sem hlutust af útleigu eigna.

Meðal þeirra sem hafa leigt út íbúðir sínar í gegnum síður líkt og Airbnb eru íbúar í Stúdentagörðum Háskóla Íslands. Slíkt telst þó vera brot á leigusamningi sem nemar gera við Félagsstofnun stúdenta og viðurlögin eru skýr.

„Við því broti liggur bara sú refsing að leigusamningum er umsvifalaust sagt upp og viðkomandi hefur 30 daga til að rýma íbúðina,“ segir Guðrún Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Félagsstofnunar stúdenta. 

Fá leigjendur einhverja aðvörun eða er bara fyrirvaralaust rift?

„Það er bara rift,“ segir Guðrún.

Tveimur samningum verið rift

Einum leigusamningi var rift í fyrra vegna þessa og öðrum nú nýverið. Þá eru fleiri mál til skoðunar. Guðrún segir ummerki um að framleigu til erlendra ferðamanna hafi fjölgað undanfarna mánuði.

„Það er fólk að koma inn og út með ferðatöskur, eins hafa verið bílaleigubílar og slíkt. Þannig að þegar að við sjáum eitthvað þannig, að þá höfum við samband og reynum að finna til dæmis bara hvaða íbúð þetta getur mögulega verið og höfum þá samband við leigutaka."

Hafið þið skoðað að rýmka skilyrðin fyrir því að leigjendur geti áframleigt íbúð, þá sérstaklega yfir sumartímann?

Við höfum ekki gert það. Við höfum reyndar fundið fyrir því að það gæti verið þörf á því að skoða það. Einu tilvikin þar sem við leyfum framleigu er þegar fólk er að fara á vegum Háskólans í skiptinám erlendis og þá að nýr leigutaki sé nemandi við Háskóla Íslands. Þannig að þetta kemur svona annað slagið upp og getur vel verið að við skoðum það. En eins og staðan er núna þá hefur þrýstingurinn langmest verið á það að fá 12 mánaða leigusamning, og hitt eru svona jaðartilvik,“ segir Guðrún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×