Innlent

Leiguhúsnæði verði fjórðungur íbúða í nýjum hverfum

Mynd úr safni /Anton Brink
Í nýjum hverfum miðsvæðis í Reykjavík verður gert ráð fyrir að leiguhúsnæði verði minnst fjórðungur íbúðarhúsnæðis, nái tillögur vinnuhóps um mótun húsnæðisstefnu borgarinnar til ársins 2020 fram að ganga. Umrædd hverfi eru til að mynda í Vatnsmýri, við Mýrargötu og við Hlemm.

Vinnuhópurinn skilaði af sér tillögum til borgarráðs í byrjun júlí og eru þær í umsagnarferli til vikuloka.

Helsta markmiðið með tillögunum er að tryggja öruggt húsnæði á viðráðanlegu verði fyrir alla borgarbúa. Þá er þar sérstaklega fjallað um hlutfall leiguhúsnæðis í hverfum borgarinnar.

Sem stendur er hlutfall leiguíbúða talið vera vel undir 20% af öllu íbúðarhúsnæði í borginni, en stefna á að því að það verði fjórðungur. Þá er í tillögunum kveðið á um að við skipulag íbúðahverfa skuli tryggt að fimmtungur íbúða, hið minnsta, miðist við þarfir tekjuminni hópa.




Tengdar fréttir

Byggja upp ódýrt húsnæði fyrir ungt fólk og tekjulága

Sérstök áhersla er lögð á að byggja upp ódýrt húsnæði fyrir ungt fólk og tekjulága hópa, samkvæmt stefnumótun vinnuhóps um húsnæðisstefnu Reykjavíkurborgar. Markmiðið er að efla leigumarkaðinn í borginni þannig að allir borgarbúar eigi kost á öruggu húsnæði á viðráðanlegu verði. Vinnuhópur um húsnæðisstefnu Reykjavíkurborgar til ársins 2020 skilaði af sér tillögum til borgarráðs í byrjun júlí. Tillögurnar eru nú í umsagnarferli en frestur til að skila inn umsögnum rennur út í vikulok. Björk Vilhelmsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar er formaður starfshópsins. Hún segir brýna þörf á að efla leigumarkaðinn í borginni. Í skýrslu hópsins er lagt til að félagasamtök og húsnæðissamvinnufélög sem bjóða ungu fólki og tekjulágum upp á leiguíbúðir og búseturéttaríbúðir á viðráðanlegum kjörum, fái forgang á úthlutun lóða, að uppfylltum skilyrðum Reykjavíkurborgar. Mat starfshópsins er að mest þörf sé á ódýrara húsnæði fyrir þessa hópa og því lagt til að úthlutanir á lóðum í nánustu framtíð taki mið af því. Þá er hvatt til þess að Reykjavíkurborg hafi forystu í að endurskoða og samræma reglur um sérstakar húsaleigubætur, í samvinnu við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, í því skyni að létta greiðslubyrði til tekjulágs fólks sem jafnframt á í félagslegum vanda. Samkvæmt nýjum reglum verði stuðningur óháður því hver á eða rekur húsnæði, heldur fari hann eftir aðstæðum og greiðslubyrði hvers leigjanda. Vinnuhópurinn mælist ennfremur til þess að Félagsbústaðir reki áfram húsæði fyrir þá sem ekki geta leit á almennum markaði, þrátt fyrir sérstsakan stuðning. Þá verði kannaður sá möguleiki að Félagsbústaðir sinni félagslegu húsnæði á öllu höfuðborgarsvæðinu Meðal þeirra sem skila umsögn um tillögurnar eru Neytendasamtökin, Félagsstofnun stúdenta og Öryrkjabandalagið. Almenningi er einnig frjálst að senda inn umsagnir. Skýrsluna má nálgast á vef Reykjavíkurborgar



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×